Mannvirkjastofnun tekur til starfa um áramót

Ný lög hafa verið samþykkt á Alþingi um mannvirki.
Ný lög hafa verið samþykkt á Alþingi um mannvirki.

Alþingi samþykkti í morgun heildarlög um mannvirki, en þau fela í sér að ný stofnun, Mannvirkjastofnun, tekur til starfa um áramót. Jafnframt verður Brunamálastofnun lögð niður og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Mannvirkjastofnunar.

Sérstak byggingaröryggisgjald mun fjármagna starfsemi Mannvirkjastofnunar. Að sögn umhverfisráðuneytisins er ekki um nýtt gjald að ræða heldur hafi ákvæði um svokallað brunavarnagjald, sem innheimt hafi verið á grundvelli laga um brunavarnir, verið fært inn í frumvarp til laga um mannvirki.

Lögin fela í sér að viðskipti með byggingarvörur færist frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis og er gert ráð fyrir að framkvæmd þeirrar reglugerðar verði í höndum Mannvirkjastofnunar. Þá mun Mannvirkjastofnun annast aðgengismál.

Lögin gera ráð fyrir að meginþungi byggingareftirlits í landinu verði áfram í höndum sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að byggingarnefndir verði valkvæðar þar sem sveitarstjórnum verður heimilt að kveða á um starfrækslu slíkrar nefndar í sérstakri samþykkt. Þá koma sveitarstjórnir að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Hlutverk sveitarfélaganna verður að ráða byggingarfulltrúa sem síðan munu sinna útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd byggingareftirlits.

Þessi breyting er gerð með þeim rökum að í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna er eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Nánar á vef umhverfisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert