Stöðva verður atgervisflóttann

Mikill atgervisflótti er úr röðum heimilislækna hér á landi
Mikill atgervisflótti er úr röðum heimilislækna hér á landi mbl.is/Golli

Stjórnir Félags íslenskra heimilislækna og Læknafélags Íslands telja að ef ekkert verður að gert í að fjölga heimilislæknum er fyrirsjáanlegt að heimilislækningar í þeirri mynd sem við þekkjum munu líða undir lok á næstu árum. Hefur þeim fækkað um meira en 100 á tveimur árum. Þetta kemur fram í ábendingu til Alþingis frá stjórnunum tveimur.

Helmingur lætur af störfum á næstu tíu árum vegna aldurs

Benda læknarnir á að  á höfuðborgarsvæðinu er aldurssamsetning starfandi heimilislækna þannig að á næstu 10 árum mun um og yfir helmingur þeirra láta af störfum vegna aldurs.

„Stjórnir Félags íslenskra heimilislækna og Læknafélags Íslands beina því til heilbrigðisráðherra, heilbrigðisnefndar Alþingis og stjórna heilbrigðisstofnana um land allt,að standa vörð um frumheilbrigðisþjónustuna og taka strax höndum saman og vinna að fjölgun sérfræðinga í heimilislækningum með því meðal annars að gera starfið aðlaðandi og fjölga námsstöðum í faginu. Verði ekkert aðhafst er fyrirsjáanlegt að heimilislækningar í þeirri mynd sem við þekkjum munu líða undir lok á næstu árum.

Á undanförnum mánuðum hefur sífellt meira borið á atgervisflótta úr læknastétt með þeim afleiðingum að læknum á Íslandi hefur fækkað um meira en 100 á síðustu tveimur árum. Ástæðurnar má rekja til niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu, óhóflegs vinnuálags á lækna og almennt versnandi kjara. Undanfarnar vikur hefur verið rætt um heilsugæsluna sérstaklega, bæði úr ræðustól Alþingis og í sumum fréttamiðlum.

Lítið hefur borið á því að rætt hafi verið við forystumenn lækna eða tilraun hafi verið gerð til að greina vandann. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur verið undirmönnuð af læknum um árabil og í „góðærinu“ bættust nánast engar nýjar læknastöður við þrátt fyrir mannfjölgun á svæðinu um tugi þúsunda. Þess í stað var skorið niður og sífellt leitað nýrri leiða til sparnaðar. Eftir hrun héldu niðurskurður og sparnaður áfram og kjör og starfsöryggi versnuðu. Við þetta bætist að á höfuðborgarsvæðinu er aldurssamsetning starfandi heimilislækna þannig að á næstu 10 árum mun um og yfir helmingur þeirra láta af störfum vegna aldurs.

Nýliðun hefur verið hæg og dregið úr henni frekar en hitt, einkum vegna þess vinnuálags sem starfinu fylgir og hve fáar námsstöður eru í boði. Auk þess hefur lengi verið skortur á heimilislæknum á landsbyggðinni.

Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar Læknafélags Íslands og Félags íslenskra heimilislækna um þetta undanfarin ár hefur ekkert gerst. Nú má segja að mælirinn hafi fyllst og það svo um munar þegar reynt er að telja fólki trú um að leysa megi vandann með því að aðrar heilbrigðisstéttir taki að sér lögbundin verk lækna. Látum lækna um lækningar og aðrar heilbrigðisstéttir um sitt.

Gleymum því ekki að menntun heimilislæknis tekur um 12 ár frá því að hann byrjar í læknanámi til þess að hann lýkur sérnámi í heimilislækningum og 2-6 ár bætast þar við ef hann eykur við menntun sína meistara- eða doktorsnámi. Það er því löngu kominn tími til athafna í stað orða. Gerum starf heimilislæknisins eftirsóknarvert fyrir unga lækna. Byrjum strax í dag."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert