Lögregla fær ekki rafbyssur

Rafbyssa.
Rafbyssa.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, telur að svo stöddu ekki tilefni til að búa öll lögreglulið landsins rafbyssum. Þá segist ráðherra telja að takmarka eigi vopnaburð lögreglu sem frekast er unnt. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari dómsmálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur um rafbyssur í lögreglustarfi.

Í svarinu segir, að dómsmálaráðuneytið hafi haft málefnið til skoðunar um nokkurt skeið og telji að svo stöddu ekki tilefni til að búa öll lögreglulið rafstuðstækjum. Í fyrsta lagi telji ríkislögreglustjóri ekki rétt að taka rafstuðstæki í notkun, eins og sakir standa. Í öðru lagi hefði það umtalsverðan kostnað í för með sér. Í þriðja lagi sé notkun rafstuðstækja umdeild og hafi mannréttindasamtök á borð við Amnesty International gagnrýnt notkun þeirra.

Rafbyssur senda frá sér spennu, sem hefur áhrif á skyntauga- og hreyfitaugakerfið og veldur tímabundinni tauga- og vöðvalömun.  Sá sem fyrir skotinu verður stífnar upp og getur ekki hreyft sig á meðan tækið er í gangi.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert