206 milljóna hagnaður af rekstri RÚV

Hagnaður af rekstri RÚV rekstrarárið 1. september 2009 til 31. ágúst 2010 var 206 milljónir króna. Afkoma félagsins batnaði um 477 milljónir króna frá árinu á undan. Þessi hagnaður kemur til styrkingar á eigin fé RÚV sem er nú 721 milljón króna og eiginfjárhlutfallið er 13,1%. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Þegar rekstrarformi RÚV var breytt vorið 2007 lýstu forráðamenn félagsins því markmiði að ná jafnvægi í rekstri RÚV innan tveggja ára - eftir nær stöðugan taprekstur í áratugi. Það markmið náðist. Frá því í febrúar 2009 hefur rekstur RÚV verið réttu megin við strikið – þrátt fyrir ytri áföll og síendurtekinn niðurskurð stjórnvalda á tekjum RÚV af almannaþjónustu,“ segir í tilkynningu.

15 milljóna laun útvarpsstjóra

Fram kemur í ársreikningi Ríkisútvarpsins ohf. að heildarlaun og þóknanir til tíu helstu stjórnenda námu 99 milljónum króna á rekstrarárinu, þar af til útvarpsstjóra 15 milljónum króna. Rekstrarárið á undan námu laun útvarpsstjóra 18 milljónum króna. Inni í launum útvarpsstjóra er hlunnindamat bíls sem hann hafði til afnota til loka febrúar 2010.

Stjórnarlaun nema 6 milljónum króna en voru 6,5 milljónir króna rekstrarárið á undan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert