Ekki níð um nokkurn mann segir Ólína

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir segir að ekki halli persónulega á nokkurn mann í tölvupósti hennar til þingmanna Samfylkingar og VG um Lilju Mósesdóttur. Bréfið hafi verið svar við bréfi sem Þórður Runólfsson sendi á þingmenn með ásökunum á hendur forsætisráðherra um stjórnarskrárbrot og yfirgang við þingmenn VG.

„Hann sendi þetta bréf á allan þingheim en svarið sem ég sendi honum fór með afriti á þingmenn Samfylkingar og VG vegna þess að það varðar þingmann í stjórnarliðinu og mér fannst það ekki koma fleirum við hvaða skoðun ég hefði á framgöngu stjórnarliða," segir Ólína.

Hún segist í þessu bréfi ekki hafa hallmælt Lilju Mósesdóttur né nokkrum öðrum þingmanni persónulega, en áskilji sér hinsvegar fullan rétt til þess að hafa skoðun á orðum og gjörðum stjórnmálamanna. „Ég er að lýsa minni sýn á þátttöku einstakra þingmanna í stjórnarsamstarfi," segir Ólína. „Ég lít svo á, með fullri virðingu fyrir stefnuskrám flokka, að þegar gerður hefur verið stjórnarsáttmáli þá eigi menn að standa við stjórnarsáttmálann, það er hann sem er fyrirheitið sem þjóðinni er gefið þegar ríkisstjórn er mynduð."

Aðspurð hvort um eðlileg samskipti varðandi störf annarra þingmann sé að ræða segir Ólína að tölvusamskipti sem þessi séu tíð. „Það eru fjölmargir einstaklingar sem sjá ástæðu til að senda okkur tölvupósta um hvaðeina, stundum sjáum við ástæðu til að svara þeim og stundum ekki og það er allur gangur á því hvort við sendum svör á alla eða bara viðkomandi einstakling."  Ólína segir jafnframt að þótt margir viðtakendur séu við bréfinu sé engu að síður um einkasamskipti að ræða. „Mér finnst því undarlegt að Morgunblaðið sé að fjalla um þetta með þessum hætti og gefa í skyn eitthvað sem blaðið hefur engar forsendur fyrir. Þetta eru bara dylgjur því ef þú lest þetta bréf þá er ekki verið að flytja þarna neitt níð um nokkurn mann, þetta eru bara viðbrögð við opinberum ummælum forsætisráðherra og við bréfi sem barst frá manni utan úr bæ með röngum ásökunum um hvað að baki liggi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert