Sólarhringstöf vegna bilunar í Berlín

Flugvél frá Iceland Express.
Flugvél frá Iceland Express. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Bilun varð í vél Iceland Express á leið frá Berlín til Keflavíkur síðdegis í gær og tefst heimför flugfarþega þar um sólarhring af þeim sökum. Að sögn Kristínar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa Iceland Express kviknaði viðvörunarljós í mælaborði í flugstjórnarklefa og var því ákveðið að vélin skyldi gangast undir hefðbundið eftirlit áður en henni yrði hleypt í loftið.

Farþegar voru fluttir á nærliggjandi hótel þar sem þeir gistu í nótt. Morgunblaðið heyrði frá einum farþeganna að flugvélin sem bilaði sé mjög gömul. Kristín segir að svo sé ekki og flugvélafloti Iceland Express sé yfir höfuð ekki sérlega gamall.

Vegna tafa sem urðu í Danmörku í gær, en þar gat vél ekki lent í Kaupmannahöfn vegna veðurs og þurfti því að fljúga til Billund, og einnig vegna tafa í Lundúnaflugi, ákvað Iceland Express að taka aukavél á leigu til að lágmarka röskun á flugáætluninni. Áætlað er að farþegarnir sem enn sitja fastir í Berlín lendi á Íslandi um klukkan 14 í dag.

„Vegna veðursins og þessari bilun þá verða einhverjar seinkanir í dag en vonandi ekkert stórvægilegt og vonandi ekki of mikil óþægindi fyrir farþeganna," segir Kristín. „Við reynum allt sem við getum til að létta þeim lífið." Þeim sem eiga bókað flug í dag væri ráðlegt að fylgjast með framvindu mála á textavarpi eða vefsíðu Leifsstöðvar ef frekari tafir skyldu verða.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert