Telur óvíst að stjórnin lifi

Á flokksráðsfundi Vinstri grænna fyrr á árinu. Árni Þór Sigurðsson …
Á flokksráðsfundi Vinstri grænna fyrr á árinu. Árni Þór Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon voru brúnaþungir þegar ljósmyndara bar að garði. Kristinn Ingvarsson

Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður Vinstri grænna, er ekki reiðubúinn að tjá sig afdráttarlaust um það hvort ríkisstjórnin muni lifa af í óbreyttri mynd. „Það er mjög erfitt að segja til um það,“ segir Árni Þór.

„Á flokksfundi rétt fyrir jól kvöddumst við með þeim orðum að við skyldum hugsa okkar mál yfir jól og áramót - að við skyldum taka okkur frí frá þessu og hittast svo eftir áramót. Þingflokksfundur hefur verið boðaður í næstu viku og ég reikna með að við förum yfir málin þar. Ég ætla ekki að tjá mig um málið þangað til.“

- Þessi ríkisstjórn hefur glímt við mörg vandasöm verkefni á fyrri hluta kjörtímabilsins. Á þeim tíma hefur hún staðið ýmislegt af sér. Heldurðu að hún muni standa þetta af sér líka?

„Það er mjög erfitt að segja til um það. Auðvitað vona ég það. En eins og ég segi ætla ég að spara allar yfirlýsingar þangað til að við erum búin að hittast og fara yfir málin. Við ætlum að taka okkur góðan tíma í vinnufund eftir áramót.“

- Hljómar þetta ekki svartsýnt, að geta ekki gefið út afdráttarlaust að samstarfið muni halda á nýju ári?

„Nei. Ég vil fá að heyra í mínu fólki í þingflokknum. Ég held að það borgi sig. Maður veit að í svona stöðu er allt notað. Því ætla ég að spara mér allar yfirlýsingar.“

- Atli Gíslason, flokksbróðir þinn, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að misfarið sé með ýmislegt í greinargerð þinni um ágreining þremenninganna við hinn hluta flokksins. Hvað viltu segja um þetta?

„Ég ætla heldur ekki að tjá mig um það á þessu stigi. Ég ætla að fá tíma til að ræða við félaga mína í þingflokknum þegar við hittumst. Og þá ræðum við meðal annars greinargerð mína og yfirlýsingu þeirra, og svo framvegis.“

Árni Þór og Jóhanna Sigurðardóttir í sal Alþingis.
Árni Þór og Jóhanna Sigurðardóttir í sal Alþingis. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert