Flugeldasalan gengið vel

Íslendingar kveðja árið með litadýrð og hvellum.
Íslendingar kveðja árið með litadýrð og hvellum. Árni Sæberg

„Salan hefur gengið mjög vel. Hún hefur verið svipuð og í fyrra. Við erum mjög ánægð,“ segir Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri hjá Landsbjörg, um flugeldasöluna síðustu dagana fyrir áramótin.

„Þessir klukkutímar sem eru að líða núna eru þeir annasömustu á sölutímabilinu. Fólk er mikið að koma til okkar í blálokin. Dagurinn á morgun verður mjög annasamur. Þá verður að líkindum fullt út úr dyrum. Íslendingar eiga ekki vana til að kaupa flugelda með fyrirhyggju. Þeir kaupa flestir flugeldanna á síðustu stundu.

Ég er búinn að fara á marga sölustaði í kvöld og það er góð stemning á öllum stöðum. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað það er mikið að gera á litlu stöðunum.“

Uppspretta 90% af sjálfsaflafé sumra sveita

Jón Ingi segir síðustu tvo dagana skipta lykilmáli í flugeldasölu björgunarsveitanna.

„Salan þá er hátt í 80% af heildarsölunni. Hún er mest frá því klukkan 18.00 í dag og til klukkan 22.00 í kvöld þegar við lokum. Dagurinn á morgun er stuttur en salan er engu að síður yfirleitt mjög mikil á gamlársdag,“ segir Jón Ingi og bætir því aðspurður við að þá sé opið frá klukkan 10.00 til 16.00.

Hann segir flugeldasöluna skipta gríðarlegu máli fyrir fjáröflun sveitanna.

„Fyrir mjög margar björgunarsveitir er þetta lykillinn að því að þær séu starfandi. Hátt í 90% af sjálfsaflafé þeirra er tilkominn vegna tekna af flugeldasölu. Ef að það yrði tekin ákvörðun um að banna flugeldasölu á Íslandi yrði því kippt undan tekjugrundvelli björgunarsveitanna á augabragði. Þetta skiptir öllu máli fyrir sveitirnar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert