Steingrímur gríðarlega bjartsýnn

Fremur fámennt var á fundi VG á Egilsstöðum í kvöld.
Fremur fámennt var á fundi VG á Egilsstöðum í kvöld. Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson

Fyrsti fundurinn í fundarherferð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um landið fór fram á Egilsstöðum í kvöld. Fyrsti fundurinn átti að vera á Ísafirði á þriðjudagkvöldið en varð að fresta honum vegna veðurs. Fundurinn á Austurlandi fór fram á Hótel Héraði og hófst á lokuðum félagsfundi og í kjölfarið var opinn stjórnmálafundur. Veðrið setti aftur strik í reikninginn því ófærð er á Austurlandi og hamlaði líklega fundarsókn. Tíu manns sátu fundinn þar sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Þuríður Backman, þingmaður flokksins, fluttu tölu og sátu fyrir svörum.

Samkvæmt fréttaritara Morgunblaðsins sem sat fundinn sagði Steingrímur frá hvernig hefði gengið í ríkisfjármálunum hingað til, hvað þau væru að gera og hvað væri framundan. Lítið var minnst á deilurnar innan flokksins nema hann skaut undir rós á þremenningana umdeildu. Steingrímur sagði 2011 vera ár uppbyggingar og tók sérstaklega fram að hann væri gríðarlega bjartsýnn. Hann sagði að það yrði að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði og í pólitík næstu tvö til þrjú árin svo allt fari vel.

Aðeins var þjarmað að honum varðandi stöðu landsbyggðarinnar, niðurskurð og  framkvæmdir í sveitafélaginu. Hann nefndi að ekki væri samstaða um að taka dýrari framkvæmdir á suðvesturhorninu fram fyrir vegabætur á landsbyggðinni. Hann lýsti því líka yfir að hann ætlaði ekki að selja í Landsbankanum á meðan hann væri fjármálaráðherra, að stefna sín væri að ríkið ætti einn kjölfestubanka og að hann ætlaði að styrkja sparisjóðina út á landi til þess að menn þyrftu ekki að sækja allt sitt fjármagn suður.

Steingrímur var líka gagnrýndur harkalega fyrir að allt vald væri að færast suður og voru nefnd dæmi um það. Spurt var eftir góðu vinstri-stefnunni og einn fundargestur benti á að Samfylkingin væri bara markaðsflokkur og ríkisstjórnin væri að stefna öllu í sama farið og var.

Steingrímur lauk fundinum á þeim orðum að rústabjörguninni væri nú að mestu lokið og nú væri hægt að fara að byggja upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert