Ekki tilefni til viðbragða

Íslensk stjórnvöld telja ekki tilefni til viðbragða við því, að Evrópusambandið beiti samskonar reglum og Ísland og Noregur um löndun erlendra fiskiskipa á afla úr sameiginlegum fiskistofnum, sem ekki hefur verið samið um stjórnun á. 

Evrópusambandið tilkynnti með formlegum hætti í dag að það hafi lagt bann á löndun makríls frá Íslandi í höfnun ESB-ríkja. Tilkynning þessa efnis var lögð fram á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í morgun.

Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, segir að samkvæmt íslenskum lögum sé erlendum skipum, sem stunda veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum sem ekki er samkomulag um stjórnun á, óheimilt að landa afla úr slíkum stofni í íslenskum höfnum. Þetta ákvæði sé í fullu samræmi við EES-samninginn og sams konar ákvæði sé að finna í norskum lögum.

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í morgun hafi fulltrúar Evrópusambandsins upplýst, að til skoðunar væri að setja bann við löndun íslenskra skipa á makríl í höfnum innan sambandsins í fullu samræmi við ákvæði EES-samningsins.

„Íslensk stjórnvöld telja ekki tilefni til viðbragða við því að ESB beiti sams konar reglum og Ísland og Noregur um löndun erlendra fiskiskipa á afla úr sameiginlegum stofnum sem ekki er samkomulag um stjórnun á. Það er rétt að hafa í huga, að makrílveiðar íslenskra skipa hafa á undanförnum árum nær eingöngu farið fram innan íslensku efnahagslögsögunnar og öllum afla hefur verið landað í íslenskum höfnum og hann unninn hér á landi," segir Tómas.

Mikilvægt sé, að menn missi ekki sjónar á því brýna úrlausnarefni að ná samkomulagi um heildstæða stjórnun veiða úr makrílstofninum til að tryggja sjálfbærar veiðar. Strandríkin fjögur, Ísland, ESB, Færeyjar og Noregur, beri þar sameiginlega ábyrgð og Ísland sé reiðubúið til að setjast að nýju að samningaborðinu og leggja sitt af mörkum til lausnar málsins.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert