Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst

Stjórnarflokkarnir hafa ekki meirihluta á þingi ef marka má könnun …
Stjórnarflokkarnir hafa ekki meirihluta á þingi ef marka má könnun Fréttablaðsins.

Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn eykst samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir í dag. Sögðust 43,4% þátttakenda styðja flokkinn sem er 7,8 prósentum meira en í könnun blaðsins í september. Aðeins rúmur helmingur þátttakenda vildi gefa upp afstöðu sína í könnuninni.

25,8% sögðust styðja Samfylkinguna sem er 2,6 prósentum minna en í síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna mælist 16,5% sem er 9,1 prósentu minna en í september. Samtals mælist fylgi stjórnarflokkanna 42,3% og fengju þeir samtals 28 þingmenn kjörna samkvæmt þessu.

Fylgi Framsóknarflokks mælist 11,8% sem er 4,5 prósentum meira en í september. Fylgi Hreyfingarinnar mælist 2,1% en var 5,6% í september.

Hringt var í 800 manns sl. miðvikudag. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk?

Alls tóku 53,9% afstöðu. Segir Fréttablaðið að rétt sé að taka niðurstöðum könnunarinnar með talsverðum fyrirvara vegna þess hve fáir gáfu upp afstöðu sína en það gefi sterklega til kynna að lítið hafi dregið úr óánægju almennings með hefðbundna stjórnmálaflokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert