Forsætisráðherra og ASÍ fara með rangt mál

Sjávarútvegur
Sjávarútvegur Skapti Hallgrímsson

Landssamband íslenskra útvegsmanna segist reiðubúið að vinna að víðtækri sátt um samningaleið í sjávarútvegi þar sem gerðir verði tímabundnir samningar milli ríkisins og útgerða um afnot þeirra af aflahlutdeild, í stað þess að afnotin séu ótímabundin eins og nú er. Forsætisráðherra og ASÍ er fullkunnugt um þetta að því er segir í yfirlýsingu frá LÍÚ, vegna ræðu forsætisráðherra og ályktunar miðstjórnar ASÍ um tengsl sjávarútvegsmála og kjarasamninga.

„LÍÚ hefur aldrei efast um forræði íslenska ríkisins á fiskveiðiauðlindinni og rétt ríkisins til að setja reglur um stjórn fiskveiða á grundvelli fullveldisréttar þess," segir í yfirlýsingu samtakanna. „Samningar um tímabundin afnot útgerða af aflahlutdeild gegn gjaldi, undirstrikar þetta forræði. Á sama hátt eiga íslenskar útgerðir stjórnarskrárvarinn rétt til afnota að aflahlutdeild sinni."

LÍÚ bendir á að stjórn fiskveiða skipti þá sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti og íslenskt samfélag allt miklu. „Til að unnt sé að reka sjálfbæran og arðbæran sjávarútveg þarf stöðugt lagaumhverfi þar sem reglur um afnot aflaheimilda eru skýrar og gilda til langs tíma. Það skiptir einnig sköpum að þeir sem nýta fiskistofnana hafi að leiðarljósi langtímamarkmið um uppbyggingu og viðgang þeirra."

Varðandi samninga um afnot af aflahlutdeild segir LÍÚ að m.a. sé horft til laga um orkunýtingu þar sem heimild er fyrir afnotasamningum við ríki og sveitarfélög til allt að 65 ára með rétti til viðræðna um framlengingu þegar helmingur afnotatímans er liðinn.  „Þá er rétt að minna á skýrslu nefndar forsætisráðherra um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins þar sem miðað er við að samningar verði að jafnaði til 40-50 ára."

„LÍÚ hefur nú beðið í rúma 4 mánuði eftir fundi með forsætis-, fjármála- og sjávarútvegs-ráðherra til að vinna að útfærslu samningaleiðarinnar.  Samningar verða ekki gerðir nema með aðkomu beggja samningsaðila. SA hefur lýst því að það sé forsenda kjarasamninga að niðurstaða náist í sjávarútvegsmálin. Í flestum ef ekki öllum heildarkjarasamningum hefur verkalýðshreyfingin uppi málefni þar sem aðkomu ríkisins er þörf. Er það ætlun ASÍ að SA hafni viðræðum við ASÍ í hvert skipti sem ASÍ hefur uppi kröfur sem varða málefni launþega sem þarfnast aðkomu ríkisins?

LÍÚ skorar á forsætisráðherra og ASÍ að vinna að farsælli lausn sjávarútvegsmálanna í stað þess að ófrægja þann mikilvæga atvinnuveg sem sjávarútvegurinn og þá sem við hann vinna."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert