Ögmundur vill ekki banna búrkur

Konur í búrkum.
Konur í búrkum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra telur ekki rétt að banna búrkur á Íslandi. Þingmennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir vilja hins vegar banna konum að klæðast slíkum klæðnaði hér á landi.

Þorgerður Katrín spurði innanríkisráðherra um hvort hann teldi koma til greina að banna búrkur á Íslandi. Hún sagði að mikil umræða ætti sér stað um þetta víða erlendis og það væri betra að við ræddum þessi mál áður en hingað kæmu konur sem klæddumst búrkum svo að hugsanlegt bann færi ekki að beinast að tilteknum einstaklingum. Hún vitnaði í Amal Tamini sem hefði sagt að búrkur hefðu ekkert með trú að gera heldur pólitík. Notkun á búrkum væri hluti af karlaveldi.

Ögmundur sagðist hafa hugsað mikið um þessi mál en niðurstaða hans væri að ekki væri rétt að leggja til bann við notkun á búrkum. Hann sagði að umræða um slíkt bann snerti umræðu um samskipti ríkja og samskipti þjóðfélagshópa innan ríkja. Hann sagði þetta snerta líka við gamalkunnu stefni Vesturlandabúa sem vildu frelsa konur í öðrum löndum úr höftum kúgunar án þess að endilega að líta á stöðu kvenna heima fyrir. Ef við færum út á þá braut að banna allt það sem sprottið væri upp af jarðvegi sem við værum ekki alveg sátt við þá væri ekki víst hvar við ættum að láta staðar numið.

Eygló Harðardóttir, Mörður Árnason og Sigmundur Ernir Rúnarsson lýstu sig sammála ráðherra um að ekki ætti að banna búrkur.

Þórunn Sveinbjarnardóttir minnti þingmenn á að fyrirspurnin hefði snúist um hvort banna ætti búrkur á Íslandi en ekki í öðrum löndum. Hún sagði að málið snerist um hvort konur ættu að vera persónugreinanlegar í hinu opinbera rými. Á Íslandi hafi verið talið eðlilegt að konur séu persónugreinarlegar á opinberum vettvangi, en ekki sé verið að skipta sér af því hvað fólk gerir heima hjá sér. „Hverjum skyldi það nú gagnast að vera ópersónugreinarlegur á almannafæri? Það er líka gott að muna að það er grundvallar munur á því að bera höfuðslæðu eða hylja andlit sitt og líkama frá toppi til tágar. Það er grundvallarmunur á því og hvorugt hefur nokkuð með trúarbrögð að gera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert