Fagnar afstöðu sjálfstæðismanna

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hrósaði sjálfstæðismönnum í ræðu um Icesave-frumvarpið á Alþingi í kvöld og sagðist fagna því mjög að þeir hyggist styðja frumvarpið.

Sagði Steingrímur að Sjálfstæðisflokkurinn væri sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til þessa máls, ekki síst Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, og vísaði Steingrímur þar til þeirrar afstöðu sem Bjarni lýsti á sínum tíma sem talsmaður  meirihluta utanríkismálanefndar þegar Icesave-málið kom upp haustið 2008. 

Steingrímur sagði að samþykkt Icesave-samkomulagsins myndi m.a. liðka verulega fyrir og opna möguleika Íslendinga á að fara út á alþjóðlegan fjármálamarkað á nýjan leik. „Að bakleystu Icesave-máli ætti íslenska ríkið ekki að vera í miklum vandræmum með að fara að undirbúa innkomu sína á alþjóðlegan fjármálamarkað á nýjan leik og ryðja þar með brautina fyrir banka og aðra aðila, stór íslensk fyrirtæki, sveitarfélög og orkufyrirtæki og fleiri slíka aðila,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert