Hefur sett 87 milljarða í fjármálastofnanir

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. MBL/Ómar Óskarsson

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að fjármálaráðherra hefði á síðustu misserum sett 87 milljarða í fjármálastofnanir sem rændar hefðu verið innan frá. Þetta hafi hann gert á grundvelli óljósra heimilda í neyðarlögunum.

Þór sagði að fjármálaráðherra hefði sett 26 milljarða í VBS, 12 milljarða í Sjóvá, 20 milljarða í Saga-Capital, 6 milljarða í Askar-Capital, 5 milljarða í Byr, 14 milljarða í Sparisjóð Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða í  Byggðastofnun.

Þór sagði að fjármálaráðherra hefði tekið ákvarðanir um þessi fjárútlát án beinna heimilda annarra en óljósra heimilda í neyðarlögunum, en þau lög hefði átt að endurskoða 1. janúar sl. Að aukið hefði fjármálaráðherra gengist í ábyrgðum eða gefið loforð um ábyrgðir til Arion banka og Íslandsbanka upp á 141 milljarð vegna yfirtöku Sprons og Straums-Burðarás. Þar til viðbótar hafi fjármálaráðherra gefið út yfirlýsingu um að allar innistæður í bönkum og sparisjóðum séu um ríkisábyrgð án þess að Alþingi hefði samþykkt það sérstaklega.

„Það getur ekki verið að þingmenn líði það lengur að fjármálaráðherra gangi fram með þessum hætti og ausi peningum sem voru rænd að innan af glæpamönnum. Það er ekkert verið að gera af hálfu framkvæmdavaldsins til þess að kyrrsetja eigur þessara manna sem stóðu að þessu ráni,“ sagði Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert