Endurupptöku synjað

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur synjað beiðni um endurupptöku kosninga til stjórnlagaþings. Gísli Tryggvason, sem kærði málið til Hæstaréttar, hefur greint frá þessu. Gísli sagðist ekki vilja tjá sig nánar um málið að svo stöddu, þegar mbl.is hafði við hann samband.

Hann segir hins vegar í grein á vef Pressunnar að sér hafi borist svar frá Hæstarétti vegna málsins. Þar segi:

„Hæstarétti barst ósk yðar 8. febrúar 2011 um að mál um kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verði endurupptekið til nýrrar meðferðar og ákvörðunar.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla fjölluðu undirritaðir dómarar um ósk yðar. Á fundum, sem haldnir voru 9. og 10. þessa mánaðar og í dag, var farið yfir öll þau rök sem þér hafið fært fram.

Það er niðurstaða Hæstaréttar að í erindi yðar séu ekki komnar fram upplýsingar, málsástæður eða lagarök sem uppfylla skilyrði til þess að málið verði endurupptekið til nýrrar meðferðar. Ósk yðar um endurupptöku framangreinds máls er því synjað.“
Bréfið undirrita dómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert