„Icesave afgreitt of hratt“

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir að Icesave-frumvarpið hafi verið afgreitt í nefndinni í dag. Hún telur að verið sé að hraða afgreiðslu frumvarpsins um of, fólkið í landinu verði að fá tíma til að kynna sér það.

„Við afgreiddum álit nefndarinnar varðandi það hvort hægt væri að leggja skatta á bankana, þannig að þeir myndu sjálfir bera Icesave skuldbindinguna,“ sagði Lilja í samtali við mbl.is.

 „Við áttum að kanna hvort hægt væri að nota hluta af iðgjaldinu, sem er fyrirhugað að nota til að byggja upp nýja innistæðitryggingasjóð til að borga Icesave skuldbindinguna, eða hvort betra væri að leggja hærri skatt á bankana. Við í nefndinni teljum að það ætti að hækka bankaskattana. En það var álit Fjármálaeftirlitsins að hærri bankaskattur  myndi leiða til aukins vaxtamunar,“ sagði Lilja.

Lilja segist telja að verið sé að hraða afgreiðslu frumvarpsins um of: „Ég hefði talið að  það væri betra að gefa fólkinu í landinu meiri tíma til að ræða kosti og galla nýja samningsins og við ættum að geta okkur meiri tíma í að vinna málið. Það þarf að kynna nýja samninginn fyrir þjóðinni. Það má ekki gleyma því að það er þjóðin, skattgreiðendur sem koma til með að borga þetta með hærri sköttum og skerðingu á velferðarþjónustu.“

Athugasemd bætt við kl. 22:30

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar sem á sæti í viðskiptanefnd, segir í tilkynningu að það sé ekki rétt að nefndin hafi frekar talið að leggja eigi til bankaskatt. 

„Í nefndinni eru níu þingmenn en aðeins fimm þeirra standa að áliti meirihlutans en tveir minnihlutar mæltu fyrir álitum sínum núna síðdegis fyrir fjárlaganefnd. Við Eygló Harðardóttir [þingkona Framsóknarflokksins] erum með annað þeirra en Guðlaugur Þór [Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins] mælti fyrir hinu,“ segir Margrét Tryggvadóttir.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert