Forseti ASÍ gagnrýnir kjararáð

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir þá ákvörðun kjararáðs að dómarar við Hæstarétt Íslands og Héraðsdóm Reykjavíkur fái 100 þúsund króna launahækkun á mánuði næstu tvö árin vegna aukins álags.

Gylfi segist í tilkynningu furða sig á þessari ákvörðun kjararáðs þar sem Alþingi hafi nýlega tekið ákvörðun um fjölgun dómara  bæði hjá héraðsdómi og Hæstarétti.
 
„Eins og þetta blasir við mér er kjararáð að fara út fyrir valdsvið sitt. Alþingi er nýbúið að taka ákvörðun um fjölgun dómara og aðstoðarmanna til þess einmitt að mæta auknu álagi. Því hlýtur maður að spyrja sig hvort kjararáð hafi yfirhöfuð umboð til að fara gegn þeirri ákvörðun Alþingis? Ég sé ekki betur en að með þessu þurfi dómstólarnir að fækka dómurum aftur til að mæta þessari launahækkun. Menn hljóta að verða halda sig innan ramma fjárlaga þar eins og annars staðar,“ segir Gylfi í tilkynningunni.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert