Kosið 9. apríl

mbl.is/Ómar

Gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin þann 9. apríl nk. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra greindi frá þessu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði á sunnudaginn að skrifa undir lög sem heimila fjármálaráðherra að staðfesta samninga við Breta og Hollendinga um Icesave. Hann vísaði málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.  

Ögmundur greindi frá því að einvörðungu verði kosið um Icesave þann 9. apríl.

Þá var kynnt að að þeir sem voru upphaflega kosnir á stjórnlagaþingið verði skipaðir í sérstakt stjórnlagaráð. Ögmundur kveðst vera mótfallinn þessu.

Í kjölfar þess að Hæstiréttur ákvað að ógilda kosningu til stjórnlagaþings sem fram fór 27. nóvember sl. skipaði forsætisráðherra samráðshóp um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar.

Það er niðurstaða meirihluta samráðshópsins „að vænlegast sé með hliðsjón af öllum aðstæðum að Alþingi komi með ákveðnari hætti inn í endurskoðunarferlið þegar á þessu stigi með skipun ráðgefandi stjórnlagaráðs með þingsályktun og leysi þannig þann hnút sem endurskoðunarferlið sem breið sátt náðist um á Alþingi með samþykkt laga um stjórnlagaþing er komið í,“ líkt og segir í fréttatilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert