Skjálftinn var nær höfuðborgarsvæðinu

Veðurstofa Íslands.
Veðurstofa Íslands. mbl.is/Ómar

„Upptök skjálftans eru norðar en þau hafa yfirleitt verið. Þau eru því ívið nær höfuðborgarsvæðinu en oft áður og því eðlilegt að skjálftinn hafi fundist vel,“ segir Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Þá á ég við skjálftann klukkan 9.06 sem er áætlaður 4 stig. Svo var skjálfti klukkan 9.49 sem var ívið minni, eða 3,8 eða 3,9 stig. Síðan hefur fylgt fjöldi eftirskjálfta sem eru miklu minni.“

Gunnar segir um hefðbundinn brotaskjálfta að ræða á mótum Evrasíu og Ameríkuflekans. Engar vísbendingar séu um eldgos undir jarðskorpunni.

„Það eru búnar að vera töluverðar jarðskjálftahrinur í Krýsuvík og við Kleifarvatn. Vorið 2009 voru þarna skjálftar sem voru yfir 4 stig og fundust vel á höfuðborgarsvæðinu, líkt og nú. Þetta eru tiltölulega algeng skjálftaupptök. Það hafa verið að mælast færslur á GPS-tækjum við Krýsuvík. En þetta er ekki tengt eldgosi eða neinu slíku. Þetta eru hefðbundnir brotaskjálftar og ekki tengdir neinum kvikuhreyfingum.

Manni léttir að við séum ekki að fá stærri skjálfta þarna austan við Kleifarvatn. Það virðast koma fram skjálftar í sjálfvirka kerfinu hjá okkur austan við Kleifarvatn, en við yfirferð sérfræðings hjá okkur virðist hins vegar sem að þeir séu í raun vestan við vatnið. Þegar skjálftarnir eru svona margir getur staðsetningin í kerfinu ruglast.

Það er aldrei hægt að segja aldrei en það er líklegra að þetta róist niður eins og staðan er núna,“ segir Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert