Meðalaldur grunnskólakennara hækkar

mbl.is/ÞÖK

Meðalaldur starfsmanna við kennslu í grunnskólum er nú 45 ár og fer hækkandi. Haustið 2010 eru 493 starfsmenn við kennslu 60 ára og eldri og hefur fjölgað jafnt og þétt í þessum aldurshópi síðasta áratug.  Fyrirsjáanlegt er að þessir starfsmenn munu fara á eftirlaun á næstu árum.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Yngri kennurum fækkar meira á milli ára en þeim sem eldri eru. Þannig fækkaði kennurum sem eru yngri en 45 ára um 127 frá fyrra ári en eldri starfsmönnum, 45 ára og eldri, fjölgaði um 35.

Alls hafa 657 starfsmenn, sem voru við kennslu í grunnskólum haustið 2009, hætt störfum vegna aldurs eða annarra starfa eða 13,2% starfsmanna.  Þetta er minnsta brottfall sem mælst hefur í tölum Hagstofunnar frá upphafi gagnasöfnunarinnar 1998-1999.

Þá hefur hlutfall kennara með réttindi aldrei mælst hærra. Á árunum 1998-2008 var hlutfall réttindakennara á bilinu 80-87% en haustið 2010 var þetta hlutfall 92,3%.

Haustið 2010 voru 377 manns við kennslu án kennsluréttinda en til samanburðar var 931 einstaklingur án réttinda við kennslu í grunnskólum árið 2002.

Hæst er hlutfall réttindakennara á landinu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 96% kennara hafa kennsluréttindi. Aðeins á Austurlandi (79,6%) og Vestfjörðum (81,3%) eru minna en 87% kennara með kennsluréttindi en utan höfuðborgarsvæðisins hefur hlutfall kennara með kennsluréttindi aukist hratt síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert