Heppilegt að málið sé komið í lögformlegan farveg

Gunnar Þorsteinsson.
Gunnar Þorsteinsson.

Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, segir í yfirlýsingu, að heppilegt sé að mál, sem hafi verið haft uppi gegn sér, sé nú loksins komið í lögformlegan farveg, eins og hann hafi ítrekað óskað eftir. Segist hann vænta þess að þannig megi ljúka þessu máli og leiða fram hið sanna.

Fram kom í Fréttablaðinu í dag, að átta konur, sem saka Gunnar um kynferðislega áreitni hafi nú gefið sig fram til lögreglu. Sé skýrslutökum að ljúka og verði Gunnar væntanlega kallaður til skýrslutöku í kjölfarið.

Gunnar ákvað í nóvember að stíga tímabundið til hliðar sem forstöðumaður Krossins. 

Yfirlýsing Gunnars er eftirfarandi:

Ég undirritaður, Gunnar Þorsteinsson, vil koma eftirfarandi á framfæri í ljósi þeirra mála, sem uppi hafa verið höfð  á hendur mér og hafa nú  komið til meðferðar lögreglu.

Ég tel heppilegt að málið er loksins komið í lögformlegan farveg, eins og ég hef ítrekað óskað eftir og vænti þess að þannig megi ljúka þessu máli og leiða fram hið sanna.

Að þessu máli liggja ýmsir þræðir og verður tíminn að skera úr um hvort hægt verður að rekja þá til upphafs síns, en ég fagna því að geta tjáð mig við ábyrga aðila.

Ég hef reynt eftir megni að gefa þeim svigrúm sem hafa sótt að mér til að fylgja sínum málum eftir.  Menn hafa reynt að koma á fót fagráði og síðan vísað málinu til sérfræðings í samvinnu við hina meintu brotaþola.  En allt þetta hefur verið án árangurs.

Ég hef reynt að ná eyrum þeirra kvenna sem um ræðir, það hefur verið skilgreint sem þöggun eða ofsóknir. 

Þegar einhver gerist ákærandi, kviðdómur, dómari og böðull í slíkum aðstæðum hlýtur illa að fara.

Ég var orðinn vondaufur um að reglur réttarríkisins giltu í þessu máli, en ég vona af einlægni að svo verði.

Ég bið Guð um að geyma menn,

Rvk. 3.3. 2011.

Gunnar Þorsteinsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert