Fréttaskýring: Spjótin standa á ríkisstjórn

Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Golli

Kjaraviðræðurnar mjakast áfram og eru stjórnvöld smám saman að koma að viðræðum um einstök mál og aðgerðir, sem samtökin á vinnumarkaði telja nauðsynlegar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.

Nú er liðinn hálfur fjórði mánuður frá því kjarasamningar losnuðu á almenna vinnumarkaðinum. Fyrir nokkru varð ljóst að markmiðið sem viðsemjendur settu sér um að niðurstaða lægi fyrir um miðjan mars næst ekki. Enginn vill spá fyrir um hversu langur tími gæti liðið þar til samkomulag fæðist.

Forystumenn ASÍ og sérsambanda þess ætla að fara yfir stöðuna í viðræðunum á fundi í dag, skv. upplýsingum Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.

Í gær fóru m.a. fram viðræður Samtaka atvinnulífsins og fulltrúa ríkisstjórnarinnar um skattamál fyrirtækja og í dag stendur til að ræða atvinnuleysistryggingar, framkvæmdir og fleiri mál. Enn er þó ekkert farið að ræða ýmis önnur stór mál, s.s. sjávarútvegsmálin.

„Það er hreyfing á þessu“

Samhliða þessu eiga sér stað viðræður SA og ASÍ um launabreytingar í væntanlegum samningum. Ekki er von á niðurstöðu í þeim fyrr en ljóst er orðið hvað ríkisstjórnin er tilbúin að gera til að greiða fyrir samkomulagi.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að viðræður fari fram ýmist við fulltrúa stjórnvalda eða milliliðalaust við ráðherra í ríkisstjórninni. „Það er hreyfing á þessu og það hefur ekkert stoppað þetta af, en enn er þó eftir að koma ákveðnum hlutum í gang svo hægt verði að sjá hvernig þau mál þróast áfram. Þar eru mikilvægust sjávarútvegsmálin og framkvæmdamálin,“ segir hann.

,,Stóra málið núna er að endurheimta kaupmátt,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, í viðtali í Eflingarblaðinu, sem út kom í gær. „[...] það munu standa spjótin á ríkisstjórninni í þessum kjarasamningum og þá reynir á hvort gengur saman. Ég geri ráð fyrir að skattamálin verði þar áberandi þegar farið verður að ræða við ríkið, bæði tenging tekna við barna- og vaxtabætur og síðan réttindi í atvinnuleysistryggingum og réttleysi fólks við gjaldþrot fyrirtækja eins og fram hefur komið. Þá hefur ríkisstjórnin ekki ennþá efnt samkomulag sem gert var sl. sumar um starfsendurhæfingarsjóð og fleira mætti nefna,“ er haft eftir Sigurði.

Meðal þess sem launþegahreyfingin krefst af stjórnvöldum er að fallið verði frá skerðingu barnabóta. Tekjutengingar voru auknar í barnabótakerfinu um seinustu áramót og hefur verið áætlað að útgreiddar barnabætur verði tæplega 9% lægri á þessu ári en í fyrra. Er gert ráð fyrir að ríkissjóður spari sér 1,3 milljarða með skerðingu barnabótanna.

Önnur stór krafa sem verkalýðshreyfingin gerir á hendur stjórnvöldum er að staðið verði við hækkun persónuafsláttar í samræmi við samkomulagið sem gert var í febrúar 2008 eða um 3.000 kr. á mánuði og hann verði auk þess látinn fylgja verðlagi. Ef staðið hefði verið við þetta hefði persónuafsláttur hækkað um 4.105 kr. á mánuði eða um 9,3% og orðið 48.310 kr.

Lækkun tryggingagjalds myndi greiða fyrir samningum

Tvö meginmarkmið eru upp við endurnýjun kjarasamninga á vinnumarkaðinum, annars vegar að auka atvinnu, koma fjárfestingum í gang og að fækka þannig í hópi atvinnulausra og hins vegar að auka kaupmátt launafólks. Nýleg úttekt vinnuhóps á vegum ríkissáttasemjara leiðir í ljós ef persónuafslátturinn yrði hækkaður eins og gert hafði verið ráð fyrir, myndi þessi eina aðgerð auka ráðstöfunartekjur flestra tekjuhópa eða um 1,2% að meðaltali.

Meðal þeirra mála sem SA hafa beitt sér fyrir er að atvinnutryggingagjald lækki samhliða minnkandi atvinnuleysi. „Það myndi auðvelda lausn í samningum um launamálin,“ segir Vilhjálmur Egilsson

Úr kröfum á ríkisstjórn
» Tveir mánuðir eru frá því ASÍ og SA lögðu kröfur sínar og áherslur fyrir stjórnvöld.
» SA vilja sátt um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á grundvelli niðurstöðu endurskoðunarnefndar frá seinasta hausti. Ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema þetta liggi fyrir.
» ASÍ vill að lágmarks atvinnuleysisbætur og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta hækki til jafns við hækkun lægstu launa.
» SA vill að sköpuð verði skilyrði fyrir auknar fjárfestingar og afnám gjaldeyrishafta. Átak verði gert til að koma stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu á skrið.
» ASÍ vill samræma og jafna lífeyrisréttindi alls vinnandi fólks á Íslandi. Þá er þess krafist að elli- og örorkubætur almannatrygginga hækki til jafns við hækkun lægstu launa.
» SA fer fram á lækkun atvinnutryggingagjaldsins til samræmis við minnkandi atvinnuleysi. Það er nú 3,81%. SA benda á að tekjur af gjaldinu eru 7,5 milljörðum kr. hærri en áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og atvinnutryggingagjaldið ætti því að lækka í 2,87% og tryggingagjöld í heild sinni í 7,71%.
» ASÍ krefst þess að mótuð verði skýr stefna í gengis-, vaxta- og peningamálum. Skapa verði forsendur fyrir allt að 15% styrkingu á gengi krónunnar á næstu 3 árum til að forðast að veikt gengi leiði til viðvarandi verðbólgu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert