Snjóflóð féll á Siglufjarðarveg

Siglufjörður.
Siglufjörður. mats.is

Siglufjarðarvegur er ófær vegna snjóflóða. Að sögn Vegagerðarinnar verður ekki reynt að opna veginn þar í kvöld. 

Lögreglan í Fjallabyggð er á leiðinni á vettvang til að kanna aðstæður en að hennar sögn sakaði engan. Flóðið var ekki mikið en þó nægilega stórt til þess að loka veginum. Hvöss suðvestan átt er nú á þessum slóðum og verður beðið með að opna veginn þar til lægir.

Veðurstofan gerir ráð fyrir samfelldri snjókomu í um tvær til þrjár klukkustundir undir kvöld vestan og suðvestanlands. Einnig á Suðurlandi síðar í kvöld. Vindur verður hægur til að byrja með en síðar gengur í vestan hvassviðri suðvestanlands og austur með suðurströndinni, og þá með talsverðum skafrenningi og takmörkuðu skyggni. Á Norðurlandi fer veður versnandi, s.s. á Öxnadalsheiði með nokkuð hvassri suðvestanátt.  

Það eru hálkublettir í Þrengslunum en Hellisheiðin er auð sem og Hringvegurinn austur eftir Suðurlandi. Hins vegar er víða hálka á öðrum vegum á Suðurlandi, jafnvel þæfingsfærð á fáeinum útvegum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar skafrenningur.

Hálka eða snjóþekja er á velflestum vegum á Norðurlandi og víða skafrenningur eða ofankoma.

Á Austurlandi eru hálkublettir á flestum vegum en þó hálka og skafrenningur á Fjarðarheiði. Vegir eru auðir á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert