Stórkostleg hætta fylgir botulin-efnum

Konan sprautar botoxi í andlit skjólstæðinga sinna.
Konan sprautar botoxi í andlit skjólstæðinga sinna.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir að því fylgi stórkostleg hætta að láta sprauta botulin-efnum í líkamann. Landlæknisembættið er að íhuga með hvaða hætti það getur brugðist við starfsemi stunduð er í heimahúsi í Kópavogi sem gengur út á fegrunaraðgerðir.

DV sagði frá þessu máli í dag, en um er að ræða konu sem flutt hefur inn lyf frá Úkraínu. Hún býður fólki upp á að sprauta botoxi í andlit í þeim tilgangi að slétta úr hrukkum.

Geir sagði að sú starfssemi konan stæði fyrir væri ekki heilbrigðisstarfsemi. Hún væri ekki löggiltur heilbrigðisstarfsmaður. Jafnframt væri hún að flytja inn lyf, en eftirlit því með félli undir starfsemi Lyfjastofnunar.

„Botulin er stórhættulegt efni ef ekki er farið með það af skynsemi. Botulin er mjög sterkt eiturefni og getur valdið stórfelldum skaða ef það er ekki meðhöndlað rétt. Þetta lyf er háð markaðsleyfi og á alls ekki að vera í notkun nema það sé undir ábyrgð læknis eða annars faglegs aðila,“ sagði Geir.

Geir sagði að þetta mál snerti líka lög um neytendavernd og lög um lyfjainnflutning. Hann sagðist hins vegar vera skoða hvernig landlæknisembættið gæti brugðist við.

Geir sagði að landlæknisembættinu hefði borist fyrirspurnir frá fólki sem óskaði eftir að fá að sprauta efnum í fólk. Hann sagðist hafa lagt áherslu á að tryggt væri að starfsfólk sem væri að sinna þessu uppfyllt lágmarkskröfur. Ef um væri að ræða ávísanaskyld lyf þá gerði hann kröfu um að þau væru skrifuð út af lækni sem hefði leyfi til að ávísa á lyf.

Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, sagðist telja að þetta mál ætti að vera rannsakað af lögreglu. Hún sagði að Lyfjastofnun hefði leiðbeiningarskyldu gagnvart starfsmönnum tollsins sem reyndu að hamla því að ólögleg lyf væru flutt til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert