Atli situr ekki í umboði kjósenda VG

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason tilkynntu í gær að þau …
Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason tilkynntu í gær að þau hefðu sagt sig úr þingflokki VG. mbl.is/Kristinn

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í Vestmannaeyjum segist líta svo á að Atli Gíslason alþingismaður sitji ekki lengur í umboði kjósenda VG í Suðurkjördæmi eftir að hann tók ákvörðun um að segja sig úr þingflokki VG.

Í ályktun frá stjórn VG í Eyjum er lýst yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Atla Gíslasonar þingmanns í Suðurkjördæmi að segja sig úr þingflokki VG.

„Með úrsögninni telur stjórnin að Atli sitji ekki lengur á Alþingi í umboði kjósenda VG í kjördæminu. Þess vegna skorar stjórnin á Atla að segja af sér þingmennsku svo varamaður hans geti tekið sæti á Alþingi,“ segir í ályktun frá stjórninni.

Stjórn VG í Vestmannaeyjum ítrekar fullan stuðning sinn við ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar og lýsir yfir ánægju með þann árangur sem náðst hefur á fjölmörgum sviðum þjóðmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert