Hámark sett á laun verkalýðsforingja

Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. mbl.is

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að hámarkslaun forsvarsmanns verkalýðsfélags og hagsmunasamtaka launafólks megi ekki vera hærri en þreföld lágmarkskjör í því verkalýðsfélagi eða hagsmunasamtökum sem hann veitir forstöðu.

„Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmenn verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki eru rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með frumvarpinu væru samningsfrelsi settar nokkrar skorður enda yrði ólöglegt að semja um hærri laun en sem nemur þreföldum lágmarkskjörum. Við ákvörðun þessa hámarks var þó gætt meðalhófs og ekki gengið of nærri samningsfrelsi aðila. Með því að kveða á um þreföld lágmarkskjör er enn fremur talið tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að launin séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans og ákvæðið dragi ekki úr hvata þeirra sem hæfastir eru til að sinna því.

Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert