Hægt að ná saman um flest

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Reuters

„Ég tel að með kjarasamningana sé hægt að ná niðurstöðu í flestum ef ekki öllum málum sem þeir hafa beint að okkur með einum eða öðrum hætti nema fiskveiðistjórnunarmálinu. Það er ekki þannig vaxið að það sé hægt að setjast yfir það með aðilum frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna eða SA og fara að semja um það mál,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins frá því í morgun þess efnis að þau treysti sér ekki til að ráðast til lokaatlögu við að ljúka kjarasamningum í þessari viku eins og til stóð. 

„Við höfum unnið mjög mikið á undanförnum dögum og vikum að málum sem þeir hafa beint að okkur og þar eru mörg stór mál. Ég býst við að maður hafi sjaldan séð eins stór mál í kjarasamningum sem beinast að ríkisstjórn“ sagði Jóhanna að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Nefndi hún þar sérstaklega jöfnun lífeyrissréttinda og framtíðarstjórn fiskveiða sem SA hefði gegn vilja ríkisstjórnarinnar sett fram sem kröfu til að ná kjarasamningum.

„Það mál er búið að vera í samningaferli í eitt til eitt og hálft ár. Þaðan fór það yfir til sjávarútvegsráðherra. Hann hefur í samráði við þingflokkana unnið að útfærslu á því og vonandi sjáum við það inni á þingi sem fyrst.“

Sagðist forsætisráðherra að það mál kæmi örugglega ekki fyrir þingið í þessari viku en hún vonaðist til að það kæmi fljótlega.

Á fimmtudag rennur út frestur til að leggja fram frumvörp á þessu þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert