Lagði ekki fram tillögu um lausn

Forsætisráðuneytið.
Forsætisráðuneytið.

Anna Kristín Ólafsdóttir átti í dag fund með embættismönnum í forsætisráðuneytinu um niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Engin tillaga að lausn var lögð fram á fundinum. Anna Kristín sagðist hafa búist við að hugmyndir um lausn málsins yrðu lagðar fram á fundinum.

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög þegar hún réð Arnar Þór Másson í embætti skrifstofustjóra hjá skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í fyrra. Anna Kristín sótti einnig um stöðuna, en nefndin taldi ekki neinar vísbendingar um að Arnar hafi verið hæfari til starfans.

Á fundinum í forsætisráðuneytinu í dag með Önnu Kristínu voru viðbrögð við niðurstöðu kærunefndar rædd.

„Ráðuneytið lagði ekki fram neinar tillögur um lausn málsins,“ sagði Anna Kristín um fundinn. „Þau báru fyrir sig að þau væru að bíða eftir einhverju áliti frá ríkislögmanni. Ég sagði á fundinum að ég væri tilbúin til að ná sáttum á grundvelli jafnréttislaganna, þ.e. þeirra laga sem úrskurðurinn er byggður á. Þar er kveðið á um bætur. Það er hins vegar ráðherrans að ákveða hvort hún vill fara með málið fyrir dómstóla og reyna að fá úrskurði kærunefndar hnekkt.“

Anna Kristín sagðist ekki ætla að bíða lengi eftir svörum frá ráðuneytinu. Ef ekki kæmu svör fljótlega myndi hún höfða skaðabótamál á grundvelli úrskurðarins.

Anna Kristín Ólafsdóttir.
Anna Kristín Ólafsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert