Hyggst koma á starfsfriði

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson, formaður VR. mbl.is/Ómar

Stefán Einar Stefánsson, nýkjörinn formaður VR, segir að aðalverkefni nýs formanns sé að „koma á starfsfriði í stjórn og græða þau sár sem ýfð hafa verið upp á skrifstofu félagsins“ þannig að félagið verði betur í stakk búið að takast á við erfið og vandasöm verkefni.

„Það verður mitt verkefni að finna út úr því og það verður mjög veigamikill þáttur í mínu starfi,“ segir Stefán Einar í samtali við mbl.is.

Þá segir hann að verkefnin framundan séu bæði mörg og ærin. Hann bendir á að VR hafi vakandi augu á kjaraviðræðum. Samningar séu enn lausir og það verði hlutverk VR að reyna lenda málum með heill félagsmanna og þjóðarinnar að leiðarljósi.

„Félagið er að greiða út úr sjúkrasjóði sínum um 700 milljónir á ári, til félagsmanna sem hafa orðið fyrir áföllum. Það þarf að halda vel utan um alla þessa hluti, eins og dæmin því miður sanna að hefur ekki alltaf verið gert. Það eru þau verkefni sem stjórnin þarf að takast á við af mikilli festu og ákveðni.“

„Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir að mér sé treyst fyrir þessu. Maður verður hálf meyr yfir því, jafn ungur og maður er, að þá skuli manni vera treyst fyrir þessu risavaxna verkefni,“ segir Stefán Einar.

Hann muni vinna fyrir alla félagsmenn af fullum þunga og af mikilli alvöru.

Hann segir að stjórn félagsins sé vel skipuð af góðu og reynslumiklu fólki. „Ef við náum að láta stjórnina og skrifstofuna harmonera vel saman þá mun þetta félag ná fyrri styrk og verða flaggskip íslenskrar launþegahreyfingar.“

Aðspurður segir Stefán Einar að það liggi ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu hvenær hann muni taka við formennsku félagsins með formlegum hætti. Það sé hins vegar ljóst að skiptin muni eiga sér stað í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert