Saksóknari á ekki að reka á eftir lagabreytingu

Landsdómur kemur saman í Þjóðmenningarhúsinu.
Landsdómur kemur saman í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Kristinn

Andri Árnason hrl., verjandi Geirs H. Haarde mótmælir því harðlega að Alþingi geri nú breytingar á lögum um landsdóm, eftir að ákæra var samþykkt á Alþingi.

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í gær að hún undraðist að Alþingi væri ekki búið að afgreiða frumvarp um breytingar á lögum um landsdóm.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í lok nóvember á síðasta ári. Frumvarpið mætti mikilli andstöðu sjálfstæðismanna. Fyrstu umræðu um málið er enn ekki lokið og málið er enn ekki komið til nefndar þrátt fyrir að fjórir mánuðir séu frá því mælt var fyrir því.

Andri sagðist hafa talið, að ákveðið hefði verið að svæfa þetta frumvarp og því kæmi mjög á óvart að saksóknari Alþingis væri að þrýst á þingið um að fá það samþykkt. Afstaða Alþingis sl. haust hafi verið sú að engar breytingar þyrfti að gera á landsdómslögunum til að reka mál gegn Geir H. Haarde og því komi breytingar nú ekki til greina.

Andri segir að sé grafalvarlegt mál hvernig þetta beri að. Landsdómur sjálfur, eða forseti hans, sem fer með dómsvaldið í málinu, leggi til breytingarnar, geri tillögu í samráði að því er virðist við ráðherra, sem var einn af þeim sem samþykktu málshöfðunarályktunina, og fái síðan Alþingi, sem ákærir, til að breyta lögunum.

„Venjulega þarf verjandi aðeins að glíma við ákæruvaldið. Þarna taka sig saman dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið og leggjast á sveifina með ákæruvaldinu, að laga málsmeðferðina og skipan dómsins til,“ segir Andri.

Andri bendir á að samráð hafi verið milli saksóknarans í máli þessu annars vegar og dómsmálaráðuneytisins hins vegar, en verjandi var aldrei spurður álits.  Þetta sé líklega einsdæmi í réttarsögunni. Andri bendir á að það viti allir að það er aðeins eitt mál til meðferðar hjá dómstólnum og því er lagabreytingunni ljóslega beint gegn ákærða og að nokkru leyti honum óhagfelldar.  

Þá sé einnig algjörlega óviðeigandi að saksóknari Alþingis í þessu máli gegn Geir, sé að reka á eftir lagabreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert