Takast á um lágmarkslaun

mbl.is/Kristinn

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ settust á samningafund hjá ríkissáttasemjara um kl. 13 í dag. Á fundinum átti m.a. að ræða um hækkun lægstu launa, en ASÍ hefur sett fram þá kröfu að lágmarkslaun verði komin upp fyrir 200 þúsund í lok samningstímans árið 2014.

Hækkun lágmarkslauna hefur ekki bara áhrif á launataxta í samningum ASÍ og SA. Lægstu taxtar hjá ríkinu og sveitarfélögunum eru langt undir 200 þúsund krónum í dag. Samtök atvinnulífsins hafa ekki fallist á kröfu ASÍ enn sem komið er.

Þó viðræðum aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld sé ekki lokið telja forystumenn ASÍ að viðræðurnar séu í ágætum farvegi og að á þessu stigi þurfi að láta reyna á hversu lagt SA er tilbúið til að ganga til að mæta launakröfum ASÍ.

Sjávarútvegsmálin eru hins vegar óleyst. Forystumenn SA áttu í gær fund með sjávarútvegsráðherra þar sem skipst var á skoðunum. Litlar líkur eru taldar á að SA gangi frá kjarasamningi meðan óljóst er hvaða breytingar stjórnvöld ætla að gera í sjávarútvegsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert