Hagsmunir barna hunsaðir í forsjárdeilum

Krakkar í ungliðahreyfingu Barnaheilla. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Krakkar í ungliðahreyfingu Barnaheilla. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ástæða er til að óttast að hagsmunir barna í forsjárdeilum séu fyrir borð bornir og víki fyrir hagsmunum foreldra. Það stríðir gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en skv. 3 gr. hans ber að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi í öllum málum sem snerta þau.

Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu barna á Íslandi, sem Barnaheill á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands og UNICEF hafa sent nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Skýrsluhöfundar lýsa áhyggjum sínum af því hvernig málum er háttað þegar foreldrar deila um forræði barns og umgengni.

„Hagsmunir barna og foreldra fara í langflestum tilfellum saman en ekki í alveg öllum tilvikum og það sýnir sig í umgengni- og forsjármálum," segir Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. „Okkur finnst að stundum séu hagsmunir foreldra ríkjandi og það sé ekki tekið tillit til sjónarmiða barna og líðan þeirra."

Sem dæmi nefnir Petrína þegar barn er þvingað gegn eigin vilja í umgengni við foreldri og jafnvel fært úr öruggum aðstæðum til þess foreldris sem „á rétt á umgengninni". Þetta sé mikil innrás í einkalíf barns og  gagnkvæmur réttur barns og foreldris til umgengni sé með því alfarið verið færður yfir til þess foreldris sem óskar eftir umgengninni. Slíkt beri að gera að vel ígrunduðu máli.

Í skýrslunni er einnig gagnrýnt hve langan tíma málsmeðferð í umgengnismálum geti tekið. Þannig sé biðtími eftir fyrsta viðtali hjá fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík 3-4 vikur og eftir það geti málsmeðferðin tekið vikur og mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert