Hæstiréttur dæmdi Myoko Watai í vil

Bobby Fischer, Miyoko Watai og Sæmundur Pálsson.
Bobby Fischer, Miyoko Watai og Sæmundur Pálsson. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að Myoko Watai sé lögerfingi Bobby Fischers enda hefði hún verið gift honum þegar hann lést. Frændur Fischers höfðu borið brigður á hjónabandið. Málskostnaður var hins vegar felldur niður, en í héraðsdómi höfðu þeir verið dæmdir til að greiða 6,6 milljónir í málskostnað.

Miyoko Watai krafðist þess að hún yrði viðurkenndur lögerfingi Bobby Fischer en systrasynir Fischers, Alexander Gary Targ og Nicholas William Targ, kröfðust þess að því yrði hafnað.

Eldri systir Fischers, Joan Fischer Targ, fædd 8. júlí 1937 en er nú látin. Hún giftist Russel Targ og eignuðust þau þrjú börn, Alexander og Nicholas og Elizabet F. Targ, sem nú er látin. Elizabeth var barnlaus en lét eftir sig eiginmann. Alexander og Nicholas kváðust vera nánustu ættingjar Bobby Fischers.

Kynntust í Japan 1973

Miyoko Watai, sem er lyfjafræðingur að mennt og forseti japanska skáksambandsins, kvaðst hafa kynnst Bobby Fischer í Japan árið 1973 en hann var þá um þrítugt en hún 28 ára gömul. Hún lýsti því fyrir dómnum að í kjölfarið hafi tekist vinskapur með þeim og þau haldið sambandi með bréfaskriftum, símtölum og heimsóknum. Fischer hafi m.a. boðið henni að fylgjast með einvígi sínu og Spassky árið 1992, en það fór fram í Júgóslavíu.

Eftir einvígið hefðu tekist með þeim kærleikar og árið 2000 hafi Fischer komið til Tókýó í Japan, flutt inn til hennar og þau í raun verið í hjúskap næstu fjögur ár. Þeim hafi hins vegar verið í mun að halda einkalífi sínu frá fjölmiðlum. Eftir að Fischer var handtekinn árið 2004 hafi Fischer talið að nauðsynlegt væri að opinbera samband þeirra og ganga jafnframt í hjúskap. Hjúskapurinn hafi verið formlegar samþykktur í ársbyrjun 2005, eftir nokkrar tafir.

Miyoki Watai fylgdi Fischer hingað til lands sama ár. Næstu þrjú ár hafi hún komið yfir 20 sinnum til Íslands til að dveljast hjá honum og þess á milli verið í miklum samskiptum.

Eftir að Fischer lést kröfðust Targ-bræðurnir opinberra skipta á dánarbúi Fischers en því var hafnað á þeim grundvelli að þeir væru ekki erfingjar Fischers. Málið hefur þvælst töluvert um í réttarkerfinu síðan þá og m.a. oftar en einu sinni komið til kasta Hæstaréttar.

Hæstiréttur segir að eftir meginreglum íslensks sifjaréttar verði að viðurkenna hjúskap sem stofnað hefur verið til erlendis. Líta verði svo á að Fischer og Myoko Watai hafi eftir japönskum lögum stofnað til hjúskapar með því að afhenda sameiginlega skriflega yfirlýsingu þeirra um það efni, sem þar til bært stjórnvald hafi metið gilda og skráð á viðeigandi hátt.

„Þótt hjónaefnin hafi samkvæmt þessu ekki komið fyrir vígslumann og staðfest vilja sinn til að stofna til hjúskapar, svo sem þau hefðu gert við hjónavígslu hér á landi, getur það ekki staðið því í vegi að hann verði viðurkenndur, enda er það meginatriði ljóst af gögnum málsins að vilji beggja stóð til að ganga í hjónaband.

Því hefur ekki verið borið við að hjúskap þeirra hafi verið slitið að íslenskum lögum eða erlendum fyrir andlát [Fischers]. Ekki verður fallist á með sóknaraðilum að nokkru geti breytt um gildi hjónabandsins af hvaða ástæðu [Fischer] kunni að hafa stofnað til þess eða hverju hann kunni að hafa lýst við aðra á síðustu árum ævi sinnar um hjúskaparstöðu sína eða samband sitt við varnaraðila. Að þessu öllu virtu verður varnaraðili talin gagnvart sóknaraðilum standa ein til lögerfða við skipti á dánarbúi látins eiginmanns hennar,“ segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert