Veikburða vantrauststillaga

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að tillaga Sjálfstæðisflokksins um vantraust á ríkisstjórnina væri veikburða og  í hæsta máta ótrúverðug í ljósi þess að flestir þingmenn flokksins hefðu greitt atkvæði með Icesave-lögunum.

Sagðist Eygló þó ætla að samþykkja vantrauststillöguna með miklum seminingi af því að af tvennu illu treysti hún þjóðinni betur til að velja nýtt þing í vor en ríkisstjórninni að hysja upp um sig buxurnar.

Eygló sagði, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði verið mislagðar hendur á valdatíma sínum og ekki hlustað á þjóð sína.  Sagði Eygló, að ríkisstjórnin væri léleg ríkisstjórn sem ætti vantraust skilið.

En Icesave-atkvæðagreiðslan hefði ekki aðeins verið áfall fyrir ríkisstjórnina heldur einnig forustu Sjálfstæðisflokksins, sem studdi Icesave-lögin.

„Því er einkennilegt að standa hér nú og ræða tillögu þingmann Sjálfstæðisflokksins um vantraust á ríkisstjórnina eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hafnaði máli, sem þessir sömu þingmenn samþykktu velflestir," sagði Eygló. „Er ríkisstjórnin ekki traustsins verð, að mati flutningsmanna vantrauststillögunnar, vegna þess að hún sagði já við Icesave eða vegna þess að hún tryggði ekki að þjóðin segði já við Icesave? Mætti þá ekki með sömu rökum lýsa vantrausti á forustu Sjálfstæðisflokksins."   

Eygló sagði einnig, að kosningar á næstu vikum gengju þvert á vilja þjóðarinnar um nýtt upphaf og nýtt Ísland.

„Vantrauststillögur á að leggja fram þegar maður hefur einhverja von um að fá þær samþykktar," sagði Eygló. „Allt annað er gamaldags karlapólitík, sem mér hugnast ekki. Pólitík, sem snýst um að maður er ekki hræddur, sýna að maður þori og sé ekki kjarklaus kjúklingur. (...) Þetta er ekki leikrit, ekki fótboltaleikur og ekki samanburður í sturtunni eftir leikfimi."

Höfuðlausn Bjarna 

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði í umræðunni, ömurlegt að vera orðin þátttakandi í því leikriti, sem ætti að vera höfuðlausn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Vantrauststillagan væri sett fram á forsendum Bjarna og þeirra sérhagsmuna, sem hann stæði fyrir. 

Sagðist Margrét ekki geta stutt vantrauststillöguna eins og hún væri sett fram en hún gæti heldur ekki stutt ríkisstjórnina. Því hefðu þingmenn Hreyfingarinnar farið fram á, að greidd verði atkvæði um hvorn lið tillögunnar fyrir sig. Sagðist Margrét styðja vantrauststillögu um ríkisstjórnina á sínum eigin forsendum en hún myndi ekki styðja þingrof og nýjar kosningar fyrr en stjórnlagaráð hefði lokið störfum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert