Sömdu við Becromal

Samningamenn tókust í hendur í Karphúsinu í gær.
Samningamenn tókust í hendur í Karphúsinu í gær.

Verkalýðsfélagið Eining á Akureyri og Becromal skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Að sögn Björns Snæbjörnssonar, formanns Einingar, er samningurinn „í svipuðum anda“ og menn voru að ræða um við Samtök atvinnulífsins í gærkvöldi.

Björn vildi ekki ræða um samninginn efnislega, en hann sagði að hann yrði kynntur fyrir starfsmönnum á þriðjudaginn. Hann vildi heldur ekki greina frá því hvað samningstíminn væri langur, en sagði þó að hann væri ekki til þriggja ára en vinnuveitendur hafa lagt áherslu á slíkan samning.

Starfsmenn Becromal höfðu greitt atkvæði um verkfall sem átti að hefjast 12. maí. Björn sagði ljóst að þetta hefði sett aukinn þrýsting á fyrirtækið að ganga til samninga.

Björn er líka formaður Starfsgreinasambandsins. Sambandið er í annarri stöðu en önnur landssambönd ASÍ að því leyti að það er búið að vísa kjaradeilu sinni og SA til ríkissáttasemjara. Það var gert í janúar. Félög innan þess geta því látið greiða atkvæði um verkfall telji  félögin ástæðu til að gera það. Björn vill ekkert segja um hvort félögin muni strax fara í að boða verkfall. Hann segir að félögin hafi gengið út frá því að menn væru að ná samningum og það sé mikil vonbrigði að það skuli ekki hafa tekist.

„Nú er komin ný staða og við þurfum að fara yfir málið, en ég geri ráð fyrir að ríkissáttasemjari boði samningafund í kjaradeilunni á mánudaginn,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert