Óljóst hvað Skandia dælir lengi

Sanddæluskipið Skandia.
Sanddæluskipið Skandia.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort óskað verður eftir að sanddæluskipið Skandia haldi áfram sanddælingu í maí, en í verksamningi við Íslenska gámafélagið, sem gerir skipið út, er miðað við að ekki sé dælt sandi í sumar.

Samkvæmt verksamningi við Íslenska gámafélagið átti skipið að hefja dælingu í byrjun janúar og vera við dælingu til 1. apríl. Samningurinn var framlengdur til 1. maí. Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnarsviðs Siglingastofnunar, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort hann verði framlengdur, en hann bendir á að í verksamningi hafi verið miðað við að skipið dældi um 180 þúsund tonnum af sandi til vors en það sé búið að dæla um 40 þúsund tonnum.

Sigurður segir að við það hafi verið miðað að takist að dæla það miklu magni að ekki þurfi að hafa áhyggjur af dýpi við höfnina í sumar þó að eitthvað af efni berist inn í höfnina.

Samningurinn við Íslenska gámafélagið er til þriggja ára og er miðað við að Skandia verði við dælingu frá 1. nóvember til 1. apríl næstu tvö árin.

Samkvæmt samningnum átti að greiða 132,8 milljónir fyrir dælingu á tímabilinu 2. janúar til 1. apríl sl.

Í sameiniginlegri tilkynningu frá Siglingastofnun, Eimskip, Vestmannaeyjarbær og Vegagerðinni segir að siglingar Herjólfs um páskana verða til og frá Þorlákshöfn. Útséð sé um að hægt verði að sigla í Landeyjahöfn vegna veðurs og ölduhæðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert