Ekki boðlegt í sölum Alþingis

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi, að það væri ekki boðlegur málflutningur á Alþingi, að halda því fram að forsætisráðherra væri að taka sér alræðisvald með frumvarpi um Stjórnarráð Íslands, sem nú er til meðferðar.

„Ég tel að þingmaður sem heldur slíku fram verði að rökstyðja það," sagði Jóhanna. „Hverslags bull er slíkur málflutningur, þetta er bara ekki boðlegt hérna í sölum Alþingis." Sagði Jóhanna að verið væri með frumvarpinu að styrkja stjórnsýsluna og skapa nauðsynlegan sveigjanleika. 

Jóhanna var að svara Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem sagði, að frumvarpið væri uml að leggja Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, niður.  

Þá sagði Sigmundur Davíð, verið væri að taka vald frá þinginu og færa það til framkvæmdavaldsins. Sé forsætisráðherra falið vald til að færa verkefni á milli ráðuneyta eftir því sem ráðherrann teldi henta. „Í raun má segja að forsætisráðherrann sé einn orðinn yfirráðherra og hinir ráðherrarnir einskonar aðstoðarráðherrar," sagði Sigmundur Davíð.

Varðandi rökstuðning fyrir orðum sínum um að verið væri að auka völd framkvæmdavaldsins sagðist Sigmundur Davíð geta vísað í orð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefði farið yfir þetta allt saman í gærkvöldi. „Er forsætisráðherra að halda því fram að ráðherra í sinni eigin ríkisstjórn sé að bulla?" spurði Sigmundur Davíð.

Jóhanna sagði að svipað stjórnsýslufyrirkomulag, og gert væri ráð fyrir í frumvarpinu, gilti í sjö af nágrannalöndum Íslands, þar á meðal í Danmörku og Noregi.  „Það er ótrúleg umræða sem fer fram hér um nákvæmlega þá hluti, sem frumvarpið gengur ekki út á," sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert