Riftunarmáli gegn Halldóri vísað frá

Halldór J Kristjánsson.
Halldór J Kristjánsson. Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi riftunarmáli, sem slitastjórn Landsbankans höfðaði gegn Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans. 

Vildi slitastjórnin að staðfest yrði riftun á greiðslu bankans á 100 milljónum króna inn á séreignarlífeyrissparnaðarsjóð Halldórs en sú greiðsla fór fram á grundvelli minnisblaðs sem dagsett var 16. september 2008. 

Landsbankinn byggði riftunarkröfuna m.a. á því, að um hefði verið að ræða gjafagerning og að greiðslan hafi bersýnilega verið ósanngjörn, meðal annars í ljósi fjárhagsstöðu bankans. Halldór hélt því hins vegar fram, að bankinn hefði verið gjaldfær á umræddu tímamarki. 

Við þeirri fullyrðingu brást bankinn með annarri greinargerð, þar sem reynt var að færa sönnur á að reikningsskil bankans á árinu 2008 hafi í veigamiklum atriðum verið röng og að stjórnendur bankans hefðu á þeim tíma beitt ýmsum rangfærslum í reikningsskilum hans til halda uppi eiginfjárhlutfalli bankans.

Héraðsdómur segir, að viðleitni Landsbankans til að bæta úr óljósum málatilbúnaði sínum í stefnu með síðbúinni matsbeiðni og framlagningu gagna stangist á við meginreglu laga um meðferð einkamála og raski málsgrundvellinum sem lagður var í upphaflegri stefnu. Féllst dómurinn því að frávísunarkröfu Halldórs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert