2 ára fangelsi fyrir nauðgun

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Vesturlands um að þrítugur karlmaður, Sigurður Á. Þorvaldsson, sæti í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun.

Honum var einnig gert að greiða fórnarlambi sínu, 17 ára stúlku, átta hundruð þúsund krónur í miskabætur auk áfrýjunarkostnaðar, rúma milljón króna.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa í samkvæmi í heimahúsi að morgni laugardagsins 7. nóvember 2009 afklætt stúlkuna þar sem hún lá ofurölvi á rúmi eftir skemmtanahald, kysst og káfað á líkama hennar og haft við hana samræði. Hann neitaði alfarið sök og sagði kynmökin með vilja beggja. Sigurður og stúlkan þekktust ekki.

Héraðsdómur, sem var fjölskipaður, sagði að frásögn mannsins færi í bága við flest annað sem komið hafi fram í málinu. Brotið hafi verið alvarlegt og valdið stúlkunni miklum og varanlegum miska. Í því sambandi var sérstaklega bent á að stúlkan búi í litlu samfélagi sem magni áhrifin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka