Ást, friður og kærleikur í VG

Frá æfingu á söngleiknum Hárinu á Akureyri. Einkunnarorð '68-kynslóðarinnar, ást, …
Frá æfingu á söngleiknum Hárinu á Akureyri. Einkunnarorð '68-kynslóðarinnar, ást, virðing og friður, svífa yfir vötnum á flokksráðsfundi VG í Reykjavík. Skapti Hallgrímsson

„Samskipti flokksmanna VG skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu, ást og kærleika, slíkt er forsenda þess að okkur muni takast að byggja réttlátt samfélag,“ segir í ályktun bæjarmálaráðs Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Hafnarfirði. Er tilefnið brotthvarf þremenninganna úr flokknum.

Ályktunin var tekin fyrir á flokksráðsfundi VG í Reykjavík í gær en í bæjarmálaráðinu sitja Birna Ólafsdóttir, Gestur Svavarsson, Guðrún Guðmundsdóttir, Jóhanna Marín Jónsdóttir, Jóhannes Ágústsson og Sigurbergur Árnason.

Ofangreind tilvitnun er tekin úr ályktun undir yfirskriftinni „Einarður stuðningur flokksráðs VG við ríkisstjórn vinstriflokkanna“ en þar segir orðrétt:

Fylgi stefnunni í hvívetna

„Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 20. - 21. maí, ítrekar einarðan stuðning sinn við ríkisstjórn vinstriflokkanna. Flokksráðsfundurinn minnir þingmenn, ráðherra sem og aðra kjörna fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á þá ófrávíkjanlegu lýðræðisskyldu þeirra að fylgja í hvívetna stefnu flokksins.

Stefna flokksins grundvallast hverju sinni á ákvörðunum stofnanna flokksins þ.e. landsfundar, flokksráðs, stjórnar, svæðisfélaga og bæjarmálaráða. Fundurinn hvetur til fyllstu samstöðu og einingar allra vinstri- og umhverfisverndarsinna til stuðnings ríkisstjórninni í ötulli baráttu hennar fyrir bættu samfélagi á erfiðum tímum.

Flokksráð VG ítrekar það að Vinstrihreyfingin - grænt framboð er opinn lýðræðislegur stjórnmálaflokkur þar sem ákvarðanir eru teknar á lýðræðislegum forsendum af þar til lýðræðislega kjörnum stofnunum flokksins. Allir flokksmenn skulu jafnir og skulu hafa sömu möguleika hvað það varðar að koma skoðunum sínum á framfæri innan flokksins. Ákvörðunum teknum af stofnunum flokksins skulu allir þeir hlíta sem telja vilja sig fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og þar með kjósenda flokksins.

Samskipti flokksmanna VG skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu, ást og kærleika, slíkt er forsenda þess að okkur muni takast að byggja réttlátt samfélag,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert