Minnkandi gosvirkni

Aðeins gufustrókur steig upp úr eldstöðinni í morgun.
Aðeins gufustrókur steig upp úr eldstöðinni í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Gosvirkni í Grímsvötnum hefur farið minnkandi frá því í nótt, samkvæmt stöðuskýrslu almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Gosstrókur fór hratt minnkandi og í morgun sáu sjónarvottar aðeins litla gufustróka. Aska sést þó öðru hvoru.

Að loknu eftirlitsflugi með TF-SIF staðfestu vísindamenn frá Jarðvísindastofnun HÍ það sem áður hafði komið fram; minnkandi virkni en óreglulega gosstróka sem geta verið varasamir. Strókar sem fara upp í þessa hæð hafa ekki áhrif á flugumferð, einungis á nærumhverfi sitt. Ekki er hægt að útiloka að öflugri öskustrókar geti komið fyrirvaralaust og er því fólk varað við að fara nærri gosstöðvunum. Ský hylja allstóran hluta Vatnajökuls og því erfitt að greina gosmökk af gervitunglamyndum. Ekki búist við miklu öskufoki, segir í stöðuskýrslunni.

Gjóskuframleiðsla er sögð óveruleg og er að mestu um að ræða öskufok á sunnanverðum jöklinum og í næsta nágrenni eldastöðvarinnar. Gosórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli hefur farið minnkandi. Engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni sjálfri.

Hreinsunarstarf hafið

Undirbúningur er hafinn af fullum krafti með hreinsunar- og uppbyggingu á svæðinu. Unnið er að opnum þjónustumiðstöðva á svæðinu. Von á slökkvibílum, sem byrja á því að þrífa leikskólann, skólann og öldrunarstofnunina á Klaustri. Aðstoð slökkviliðanna við hreinsunarstörf er einnig að hefjast.

Varðandi búfé mælir Matvælastofnun með að bændur meti aðstæður og setji búfé út ef mögulegt er. Þó sé mikilvægt að hafa það á svæði þar sem auðvelt er að hafa eftirlit með því og smala því saman ef á þarf að halda. Jafnframt þurfi að tryggja því aðgang að hreinu drykkjarvatni, góðu fóðri, salti og steinefnum. Lítið hefur verið um dauða eða veikindi í búfé. Askan veldur þó særindum í augum og þörf getur verið á að hreinsa augun, gott er að nota úðabrúsa til þess.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á efnainnihaldi í ösku og vatni benda til að flúorstyrkur sé lítill. Búnaðarsamband Suðurlands og Landbúnaðarháskóli Íslands eru við sýnatökur í dag á ösku og gróðri og niðurstöður rannsókna á þeim er að vænta í næstu viku. Sérgreinadýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma hjá Matvælastofnun fer í dag ásamt ráðunauti frá Búnaðarsambandi Suðurlands og heimsækir bændur ásamt héraðsdýralækni.

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug með vísindamenn í morgun nærri gosstöðvunum. Öskuský var við norðvestanverðan jökli. Teknar voru ratsjármyndir vestan við jökulinn en vegna bilunar í eftirlitsbúnaði var ekki hægt að taka nákvæmar myndir af gígnum. TF-SIF lagði upp í seinna flug kl. 16:45.

Varað við rigningarvatni

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur efnagreint tvö öskusýni úr Grímsvatnagosinu. Lítið af flúor greindist í öskunni en Búnaðarfélag Suðulands varar við því að búfé drekki vatn úr rigningarpollum. Annað sýnið var tekið á Kirkjubæjarklaustri í upphafi öskufalls, rétt eftir miðnætti 22. maí. Seinna sýnið tekið á Hörgslandi á Síðu að morgni 22. maí.

Útskolun vatnsleysanlegra efna af yfirborði öskunnar var gerð til að líkja eftir efnasamsetningu regnvatns eftir fyrstu snertingu við öskuna. Innihald öskunnar af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði er samkvæmt þessum mælingum 4,90 mg/l og 4,95 mg/l. Á fimmtudaginn mun heilbrigðisfulltrúi vera í fjöldahjálparstöðinni á Kirkjubæjarklaustri og meta neysluvatn. Hægt var að koma með neysluvatn til rannsóknar í félagsheimilið í dag og í fyrramálið. Íbúar Skaftárhrepps, sem ekki eru á samveitu Kirkjubæjarklausturs, eru sérstaklega hvattir til að notfæra sér þetta.

Tvær fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins eru á svæðinu, á Kirkjubæjarklaustri og í Hofgarði. Björgunarsveitir Hátt á annað hundrað í björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum á svæðinu frá upphafi goss og hafa aðstoðað bændur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert