Ungt fólk stofnar ASÍ-UNG

Frá þingi ASÍ-Ungra.
Frá þingi ASÍ-Ungra.

Rödd ungs fólks þarf að heyrast hátt og skýrt í þjóðfélagsumræðunni. Þetta sagði Guðni Gunnarsson, fulltrúi VM, er hann sett stofnþing ASÍ-UNG í morgun. ASÍ-UNG er ætlað að efla starf ungs fólks í verkalýðshreyfingunni.

Þingið mun standa í allan dag en hverju aðildarfélagi ASÍ var boðið að senda einn fulltrúa og sitja því alls 53 fulltrúar ungs launafólks þingið.

ASÍ-UNG er ætlað að ná til launafólks á aldrinum 18 til 35 ára og hefur sérstakur undirbúningshópur unnið að undirbúningi stofnþingsins. Megin áhersla verður lögð á málefni sem að tengjast ungu fólki sérstaklega svo sem á menntamál, húsnæðismál og fjölskyldumál auk réttinda- og kjaramála samkvæmt upplýsingum ASÍ.

Guðni sagði í setningarræðu sinni að við undirbúning þingsins hafi það verið nær  samdóma álit allra fundamanna að þingin ættu ekki að vera of formbundin og frekar í léttari kantinum. „Áhersla var lögð á að unnið yrði í litlum hópum þar sem auðvelt væri að tjá sig og viðfangsefnin ættu að varða ungt fólk og málefni þess.

Einnig er mikilvægt að niðurstöður þinga ASÍ-UNG rati inn á ársfund ASÍ svo þau málefni rati inn í stefnumörkun ASÍ.

Á undirbúningsfundum var mikið rætt um hlutverk og markmið ASÍ-UNG. Eitt megin hlutverk ASÍ-ung væri að tryggja að rödd ungs fólks heyrðist hátt og skýrt í þjóðfélagsumræðunni. Megin áherslur væri þannig málefni ungs fólks almennt, svo sem kjaramál, húsnæðismál , lífeyrismál og fræðsla til ungs fólks,“ sagði Guðni.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ávarpaði þingið í morgun. Á dagskrá fyrir hádegi eru m.a. erindi Halldórs Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ, sem fjallar um hvernig auka má tækifæri ungs fólks til menntunar og Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR, fjallar um ungt fólk og vinnumarkaðinn.

Eftir hádegi fara fram umræður í hópum um ýmis málefni og síðdegis verður kosin stjórn og formaður ASÍ-UNG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert