Tóbak verði bara selt í apótekum

Í tillögunni er lagt til að reykingar undir stýri bifreiða …
Í tillögunni er lagt til að reykingar undir stýri bifreiða verði bannaðar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Níu þingmenn úr öllum flokkum leggja til í þingsályktunartillögu um að velferðarráðherra vinni 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir
þar sem sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.

Í greinargerð segja þingmennirnir að aðgerðirnar beinist ekki gegn reykingafólki. „Þeir sem reykja og geta ekki, eða vilja ekki, hætta fá aðgengi að tóbaki háð ákveðnum skilyrðum eftir að tóbak hefur verið tekið úr almennri sölu. Aðgengi að tóbaki yrði takmarkað í áföngum á tímabilinu. Sölu yrði hætt í þrepum, svo sem í nálægð skóla, í matvöruverslunum, söluturnum, á bensínstöðvum o.s.frv. Þannig yrði tóbak einungis selt í apótekum í lok tímabilsins,“ segir þar.

Bannað að reykja á svölum fjölbýlishúsa

Einnig leggja flutningsmennirnir til að gripið verði til ýmissa takmarkana á hvar neyta má tóbaks í þingsályktunartillögunni:

„Stefna þarf að því að afnema reykingar á almannafæri. Verulegur árangur hefur náðst eð því að fækka stöðum þar sem tóbaksneysla er leyfileg. Fá ár eru síðan reykt var í flugvélum, rútum og kvikmyndahúsum, athæfi sem væri óhugsandi í dag enda ástand sem fáir ef nokkrir vilja snúa til baka til. Þó að efasemdaraddir hafi heyrst þegar slíkar reglur hafa verið settar hefur fljótt náðst góð sátt um þær, einnig meðal langflestra reykingamanna. Áfram þarf að vinna að slíkum takmörkunum í góðri sátt landsmanna og að stíga næstu skref til að vernda þá sem ekki reykja.

  • Reykingar verði óheimilar á lóðum opinberra bygginga, á gangstéttum, í almenningsgörðum og á baðströndum. Nefna má að nú þegar er t.d. bannað að reykja í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
  • Reykingar undir stýri verði, líkt og farsímanotkun, óheimilar og reykingar verði óheimilar í bílum þar sem eru börn undir 18 ára aldri.
  • Reykingar verði óheimilar á svölum fjölbýlishúsa og opinberra bygginga. Þeir sem búa í fjölbýli beri ábyrgð á því að reykurinn berist ekki í íbúðir annarra eða í almennt rými. Vernda þarf starfsmenn sem enn eru útsettir fyrir óbeinum reykingum, svo sem fangaverði, starfsmenn vistheimila og þá sem þjóna í reykherbergjum, t.d. í flughöfn.
  • Reykingar verði óheimilar í nærveru þungaðra kvenna og barna vegna eituráhrifa óbeinna reykinga,“ segir í tillögunni.

Þingmennirnir sem standa að þingsályktunartillögunni eru: Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir og Eygló Harðardóttir.

Tillagan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert