Fall sparisjóðanna verði rannsakað

mbl.is / Þorkell

Allsherjarnefnd Alþingis lagði fram þingsályktunartillögu í dag um að fram fari rannsókn á aðdraganda og orsökum rekstrarerfiðleika og gjaldþrota íslenskra sparisjóða. Gert er ráð fyrir að forsætisnefnd Alþingis skipi þriggja manna rannsóknarnefnd í því skyni.

„Þá leggi nefndin mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um starfsemi sparisjóða á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ að því er segir í þingsályktunartillögunni.

Raktir eru stuttlega í greinargerð þeir erfiðleikar sem sparisjóðirnir stóðu frammi fyrir í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 og hvernig tekið var á málum þeirra af hálfu ríkisvaldsins. Síðan segir:

„Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“

Gert er ráð fyrir að rannsóknarnefndin skili skýrslu til forseta Alþingis eigi síðar en 1. september 2012.

Þingsályktunartillaga allsherjarnefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert