Gerir alvarlega athugasemdir við litla frumvarpið

Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson mbl.is

„Í þessari umsögn eru gerðar alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði frumvarpsins. Lagt er því til að frumvarpið í heild verði fellt eða þá að það taki verulegum breytingum í meðförum þingsins.“ Svo ritar Helgi Áss Grétarssonar, sérfræðingur í fiskveiðistjórnarkerfum við Lagastofnun Háskóla Íslands, í umsögn sinni um litla frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Fundað var um frumvarpið í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd í kvöldi og er stefnt að því að klára málið fyrir þinglok. Miðað við umsögn Helga, sem er tólf blaðsíður, er margt eftir óunnið en hann gerir alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði í frumvarpinu. „Það er mín skoðun að þetta lagafrumvarp eigi sér fáa líka í flokki óvandaðra lagafrumvarpa á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnar," ritar Helgi ennfremur.

Niðurstöðuna byggir Helgi á nokkrum veigamiklum ástæðum sem hann tekur saman. Bendir hann á að einstök ákvæði frumvarpsins gætu brotið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar um eignarrétt, atvinnufrelsi, jafnræði og meðalhóf. 

 „Þrátt fyrir að frumvarpstextinn sé afar tyrfinn og efni tillagnanna flókið á að ljúka afgreiðslu málsins á Alþingi á skömmum tíma. Þessi vinnubrögð á að viðhafa þótt markmiðin með frumvarpstillögunum séu óljós og útfærsla þeirra óglögg. Mögulegar afleiðingar frumvarpstillagnana voru lítt metnar áður en þær voru settar fram. Þessu til viðbótar eru margvíslegir lagatæknilegir gallar á frumvarpinu,“ segir m.a. í umsögninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert