Nýtum ekki tækifærin innan EES

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu á Alþingi í dag að af þeirri vinnu sem fram hafi farið við að meta áhrifin af EES-samningum og mögulegt frekara samstarf við ESB hafi komi fram að þingið nýti ekki þau tækifæri sem gefist í EES-samstarfinu að fullu. Þeir hefðu sömu möguleika til að hafa áhrif innan EES og ESB.

Varaþingmaður Samfylkingarinnar, Baldur Þórhallsson, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, út í Evrópumálin og spurði meðal annars hvað flokkurinn óttaðist við inngöngu í Evrópusambandið. Hann spurði hversu lengi Íslendingar, ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn ætlaðu að sætta sig við að hafa enga möguleika á að hafa áhrif á þá löggjöf ESB sem innleidd er hér á landi.

Jafnframt sagði Baldur að EES-samningurinn væri ólýðræðislegur og litið hefði verið á hann sem skammtímasamning. Því hljóti að vera betra fyrir okkur að vera innan ESB.

Beint lýðræði að aukast hér á landi

Bjarni Benediktsson benti á að þingið hefði möguleika á að hafa áhrif í gegnum EES-samstarfið en þeir hefðu ekki verið nýttir. Þá spurði hann á móti hvort Baldur trúi því að með því að undirgangast fleiri svið ESB séum við í raun að öðlast einhver völd. „Við eigum kannski fjóra til sex þingmenn af átta hundruð, og því verður ekki haldið fram að þeir gætu haft einhver áhrif sem máli skiptu.“

Að lokum benti Bjarni á að beint lýðræði væri að aukast hér á landi og Íslendingar væru því fráhverfir því að ganga inn í ESB þar sem valdið færist fjær fólkinu í landinu.

Bæði Pétur H. Blöndal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, ræddu einnig Evrópumálin og bentu á það sama; að samhljómur sé um það að þingið hafi ekki nýtt sér þau tæki sem það hefur til að hafa áhrif í gegnum EES-samstarfið. Það væri samhljómur um að þau tæki hefðu betur átt að nýta betur, og það ætti enn að gera.

Pétur sagðist jafnframt telja að Spánverjum þyki þeir hafa meira vit á sjávarútvegi en Íslendingar, þó svo þeir gætu lært eitthvað af fiskveiðikerfinu íslenska. „En það hindrar þá ekki í því að breyta sjávarútvegskerfinu eftir tíu ár til að fá að veiða við Ísland.“ Hann sagði jafnframt að víst væri að þeir sem hafi valdið í höndunum hjá ESB myndu gleyma Íslandi í önnum dagsins.

Frekari að spyrja ríkisstjórnina

Þorgerður beindi því svo til Baldurs, líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson, samflokksmaður Þorgerðar, að hann ætti frekar að beina fyrirspurnum um ESB til ríkisstjórnarinnar þar sem ráðherrar gangi meðal annars gegn þingsályktunartillögu Alþingis, og átti þar við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Allmargir þingmenn komu þá upp og sögðu að fylgja eigi þingsályktunartillögu Alþingis og reyna að ná fram jafn góðum samningi og hægt er sem þjóðin fái að kjósa um.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert