ESB-aðild yrði lyftistöng

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. mbl.is/Golli

„Nú vitum við að aðild að Evrópusambandinu yrði okkur lyftistöng,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í framsögu flokksins í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í kvöld. Hún sagði ríkisstjórnina hafa náð „undraverðum árangri“ í efnahagsmálum. 

„Í langflestum málum sem afgreidd hafa verið ... eiga flokkarnir fimm sem hér eiga sæti samleið,“ sagði Þórunn í upphafi ræðu sinnar.

Ekki áfallalaust

Stjórnarsamstarfið hefði hins vegar ekki verið „áfallalaust“.

„Í mínum huga skiptir mestu að í samstarfi missi fólk ekki sjónar á stærstu markmiðum og málum... Við erum 320.000 sem byggjum þetta land og höfum borið gætu til að standa saman þegar stóráföll dynja yfir,“ sagði Þórunn og lýsti því svo yfir að þrátt fyrir langa reynslu af náttúruhamförum hefðu Íslendingar enga viðlíka reynslu af efnahagserfiðleikum. Á sama tíma væru „hrakspár og bölmóður“ það eina sem margir hefðu til málanna að leggja. Staðreyndin væri sú að stjórnvöld hefðu „náð undravörðum árangri“ í efnahagsmálum, árangur sem vakið hefði athygli utan landsteinanna.

Þórunn vék næst að lýðræðisbylgjunni í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. „Undursamlegt“ væri að fylgjast með frelsisbaráttunni í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. „Harðstjórarnir víka einn af öðru, dagar þeirra eru taldir,“ sagði Þórunn. Hún vék svo að orðum ungs manns sem komið hefði að gerð nýrrar stjórnarskrár í Túnis.  Það væri skoðun hans að lýðræðið ætti ekki að ganga út á að sigra með rothöggi. „Umræða hér farið fram í hnefaleikahringnum,“ sagði Þórunn og bætti því við að í íslenskum stjórnmálum hefðu „samningaviðræður og málamiðlanir þótt veikleikamerki“. Þingið væri enn fast á klafa forneskjulegra þinghefða, þótt 70% endurnýjun hefði orðið í liði þingmanna á tveimur árum. Brýnt sé í þingsköpum. „Sómi Alþingis er í húfi.“

Samningaviðræður að hefjast

„Í lok þessa mánaðar verða kaflaskipti í samskiptum við ESB. Nú ríður á að þing og þjóð standi saman um að ná hagstæðum samningum,“ sagði Þórunn og bætti því við að íslenskir stjórnmálamenn mættu ekki láta það henda að „pólitískar deilur innanlands dragi úr krafti okkar við samningaborðið“.

Þá vék Þórunn að fjölmiðlalögum sem ætlað væri að treysta stoðir „hlutlægrar og faglegrar fjölmiðlaumræðu“.

Svo sagði hún ný lög um táknmál fagnaðarefni. Þá bæri að lofa samstöðu á þingi um menntun og atvinnusköpun ungs fólks í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Samstaða væri um að opna framhaldsskólanna fyrir öllum umsækjendum yngri en 25 ára. „Það er án efa besta leiðin til að taka á við langtímaatvinnuleysi ungs fólk,“ sagði Þórunn og benti á að 75% ungs fólk sem hefði verið atvinnulaust í meira en sex mánuði hefði aðeins grunnskólapróf.

Opna þurfi landið fyrir erlendri fjárfestingu. Áætlun Íslands og AGS renni út í haust. Ísland þurfi að endurreisa trúverðugleika. Festu þurfi í efnahagsstjórninni til að tryggja fjárfestingu, halda verðbólgu niðri og festa hagvöxt í sessi.

„Aðild Íslands að EFTA var slíkt skref á sínum tíma. Nú vitum við að aðild að Evrópusambandinu yrði okkur lyftistöng,“ sagði Þórunn. 

„Við verðum að hafa viljann til að skapa bjarta og gifturíka framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert