Kópavogsbær verði borg

Fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarráði Kópavogs hefur lagt til að kannaðir verði möguleikar þess að Kópavogur verði borg en ekki bær, og kostir þess og gallar. Málinu var frestað en bæjarfulltrúinn segist ekki skynja annað en jákvæði í garð tillögunnar.

Umræðan um að Kópavogur verði borg er ekki ný af nálinni. Skemmst er að minnast þess þegar Gunnar I. Birgisson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs, tók við embætti bæjarstjóra. Þá sá hann fyrir sér að bærinn stækkaði ört og yrði fimmtíu þúsund manna borg. En þó svo það hafi ekki enn gengið ganga enn margir Kópavogsbúar með borgardrauminn í maganum.

Ómar Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokks, lagði fyrir bæjarráð á síðasta fundi tillögu fram um hugsanlega breytingu á nafni Kópavogsbæjar. Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, segir Ómar fulla ástæðu til að vera með mótvægi við Reykjavíkurborg. „Það virðist vera þannig að hún hafi alltaf verið borgin og þar eigi því öll stjórnsýsla að vera. Ef það koma upp tvær borgir verður kannski horft aðeins út fyrir vegginn.“

Ómar segist hafa kynnt sér málið fyrir nokkrum árum og komist að því að engar kvaðir séu á borgarnafninu, þ.e. ekki þurfi tiltekin fjölda íbúa, háskóla eða sjúkrahús. Því ætti vart neitt að vera því til fyrirstöðu að Kópavogur verði borg.

Spurður um tímasetninguna á tillögunni bendir Ómar á að nú sé tími sumarleyfa og því kannski ekki jafn mikið álag, s.s. í ráðuneyti samgöngumála til að skoða þetta. Þetta sé því ágætis tími til að grúska í málum sem þessum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert