Fagráð biður Guðrúnu Ebbu afsökunar

Skýrsla rannsóknarnefndar kirkjunnar.
Skýrsla rannsóknarnefndar kirkjunnar. mbl.is / Eggert

Fagráð þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota biður Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur afsökunar á að hafa brugðist henni með því að styðja hana ekki og leiðbeina henni ekki sem skyldi á árunum 2008-2010. Þetta kemur fram í bréfi sem fagráðið hefur sent Guðrúnu.

Greint er frá þessu á vef kirkjunnar. Þar er bréfið birt í heild sinni og er það svohljóðandi:

„Kæra Guðrún Ebba

Fyrir hönd fagráðs kirkjunnar um meðferð kynferðisbrota við ég biðja þig afsökunar á því að hafa brugðist þér með því að styðja þig ekki og leiðbeina sem skyldi á árunum 2008-2010. Við tökum við réttmætum ábendingum skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings sem finnur að því að við höfum ekki átt frumkvæði að því að styðja þig er þú varst að koma fram með mál þitt og óska áheyrnar hjá kirkjuráði.

Við horfðum of þröngt á óljóst gildissvið reglna okkar. Við festum okkur í því mati okkar að úr því að við hefðum ekki farveg til inngripa í mál þitt þá gætum við ekki sinnt því. Reynsla starfs okkar hefur hins vegar áréttað fyrir okkur hve mikið gildi liggur í því að heyra og virða jafnvel þá þegar við eigum enga von um úrlausn í máli þolanda gagnvart geranda kynferðisbrots. Þar brugðumst við þér Guðrún Ebba og biðjumst afsökunar á því. Við höfum nú breytt vinnulagi okkar svo að við heyrum nú öll mál sem til okkar berast, göngum inn í glímu þjáningar þeirrar sem okkur er trúað fyrir og reynum að taka okkur stöðu þar við hlið þeirra sem brotið hefur verið á. Það er ekki auðvelt en það er verkefni okkar.

Um leið og ég kem þessari afsökun okkar á framfæri þá vil ég þakka þér og þeim konum sem borið hafa hita og þunga af þeim málum sem rannsóknarnefnd kirkjuþings hefur haft til meðferðar fyrir staðfestu ykkar og heiðarleika. Þó þú, Guðrún Ebba, hafir ekki notið þeirra breytinga sem við höfum gert á starfi fagráðs þá eigum við þér mikið að þakka að þær eru orðnar. Það er ekki síst vegna þíns máls sem við höfum endurskoðað vinnulag okkar og breytt svo sem hér er að ofan lýst.

Við hlökkum svo til að fá að eiga samstarf við þig varðandi komu Marie M. Fortune hingað til lands nú í haust og þökkum þér fyrir að hafa haft frumkvæði af heimsókn hennar. Það verður spennandi að fá að njóta hennar á ráðstefnum og fundum 18.-20. október n.k.“

Bréfið undirritar Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðs um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert